Mary McDonald-Rissanen, dósent í ensku við Háskólann í Tampere, Finnlandi, heldur fyrirlestur í stofu 104 á Háskólatorgi þann 26. feb. kl. 12 – 13.
McDonand-Rissanen lauk doktorsnámi í almennri bókmenntafræði í Tampere með ritgerð um sjálfsöguleg skrif 19. og 20. aldar kvenna á Prins Edward-eyju. Bók hennar um sama efni, In the Interval of the Wave – Prince Edward Island Women’s Nineteenth and Early Twentieth-Century Life Writing, kom út hjá McGill-Queen’s háskólaútgáfunni í Kanada árið 2014. Dr. McDonald-Rissanen er fædd og upp alin á Prins Edward-eyju og dvelur þar á sumrin.
Upphaflega beindust rannsóknir McDonald-Rissanen að útgefnum dagbókum Lucy Maud Montgomery, sem er höfundur bókanna um Önnu í Grænuhlíð. Eftir að McDonald-Rissanen fann handskrifaðar dagbækur (1910-15) ömmu sinnar, Amy Darby Tanton Andrew (1881-1965), fór hún einnig að rannsaka óbirtar dagbækur kvenna af hérðaskjalasafni Prins Edward-eyju. Á meðal dagbókanna voru frumrit af dagbókum Margaret Gray Lord (1845-1941) frá 1863 til 1941. Margaret tilheyrði yfirstéttinni á eyjunni þar sem bæði faðir hennar og eiginmaður voru háttsettir, bæði í stjórnmálum og viðskiptalífi. Í krafti borgaralegarar stöðu sinnar naut hún þess að hafa heimilishjálp til að sinna heimili og fimm börnum og hafði því, sem kirkjurækin kona, frítíma til að sinna ýmsum mannúðarmálum svo sem í bindindisfélagi kvenna, Women’s Cristian Temperance Union (WCTU).
Bannlögin tóku gildi á Prins Edward-eyju í upphafi 20. aldar og konurnar í WCTU höfðu góða ástæðu til að þakka sér það. Jafnframt því að berjast fyrir því að hreinsa eyjuna af „djöfla-romminu“ var barátta þeirra, eins og staðarsagnfræðingurinn Edward MacDonald segir, „mjór en mikils vísir að almennum réttindum kvenna“. Með fulltingi annara samtaka, eins og Women’s Institute, veittu yfirvöld Prins Edward-eyju hinum helmingi íbúa sinna borgaraleg réttindi, hinn 3. maí 1922, þegar konur fengu að kjósa!
Í fyrirlestrinum verður fjallað um sögur sem sóttar eru í dagbækur kvenna á Prins Edwald-eyju en legið hafa í þagnargildi. Lesið verður í textatengsl handskrifaðra texta, við aðra texta, til að upplýsa 21. aldar lesendur um hversdagslegar athafnir formæðra okkar og afleiðingar þeirra fyrir samfélagið almennt.