Guðlaug Einarsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisráðuneytinu, og Unnur Ágústsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu hagmála og fjárlaga í heilbrigðisráðuneytinu, flytja sjöunda og jafnframt síðasta fyrirlestur fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2019. Fyrirlesturinn nefnist „Kynjuð hagstjórn og öldrun“. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 5. desember, kl. 12:00-13:00, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Í erindinu verður fjallað stuttlega um kynjaða fjárlagagerð, hvaða tilgangi hún þjónar, á hvaða grunni hún byggir og hver er staða innleiðingar hér á landi. Á næstu árum er fyrirsjáanleg mikil fjölgun aldraðra og jafnframt verða færri einstaklingar á vinnualdri að baki hverjum öldrum. Þetta er staðreynd sem mun leiða af sér krefjandi verkefni í þjónustu við aldraða. Farið verður yfir niðurstöður úr greiningum á stöðu aldraðra sem fyrir liggja hjá heilbrigðisráðuneytinu, áherslur í stjórnarsáttmála og velt upp spurningum/hugleiðingum um mismunandi stöðu kynjanna og hvernig mögulega er hægt að bregðast við og bæta úr. Guðlaug Einarsdóttir er sérfræðingur á skrifstofu heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisráðuneytinu. Á verkefnasviði hennar er m.a. þjónusta við aldraða. Guðlaug er með BSc gráðu í hjúkrunarfræði, Cand. Obst. Í ljósmóðurfræðum, MPM gráðu í verkefnastjórnun og Diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu, allt frá Háskóla Íslands. Unnur Ágústsdóttir er sérfræðingur á skrifstofu hagmála og fjárlaga í heilbrigðisráðuneytinu. Unnur er jafnframt jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins og fulltrúi þess í stýrihópi stjórnarráðsins um kynjaða fjárlagagerð. Störf hennar felast í fjárlagagerð og eftirliti með rekstri stofnana ásamt ýmsum verkefnum sem tengjast jafnréttismálum. Hún hefur stýrt jafnlaunagreiningu í ráðuneytinu en ráðuneytið öðlaðist jafnlaunavottun 2017 og launagreining fer fram árlega. Unnur er með meistaragráðu í viðskiptafræðum frá Háskólanum á Bifröst og framhaldsdiplómur í opinberri stjórnsýslu og hagnýtum jafnréttisfræðum frá Háskóla Íslands.
Fyrirlesturinn er fluttur á íslensku og er öllum opinn og aðgangur ókeypis.
Viðburðurinn á Facebook!
Hádegisfyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2019 er tileinkuð öldrun. Í fyrirlestraröðinni munu fyrirlesarar úr mismunandi greinum fjalla um viðfangsefnið út frá ólíkum sjónarhornum.
Fyrirlestraröðin er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.