Hildigunnur Ólafsdóttir flutti fyrirlesturinn Kynjabilið sem hverfur ekki. Um kynferði, menningu og áfengisneyslu á vegum RIKK fimmtudaginn 1. mars kl. 12.15 í stofu 132 í Öskju.
Rannsóknir á áfengisneyslu um allan heim hafa leitt í ljós mun á áfengisneyslu karla og kvenna. Karlar eru oftar áfengisneytendur, drekka oftar, drekka meira og valda meiri áfengisvandamálum en konur. Í fyrirlestrinum var greint frá fjölþjóðakönnun í 14 löndum Evrópu sem gerð var til þess að auka skilning á því, hvernig kyn og menning hafa áhrif á áfengisneyslu og misnotkun. Niðurstöðurnar sýna greinilegt kynjabil áfengisneyslu í öllum löndunum, og að því jafnari sem staða karla og kvenna er í samfélaginu, þeim mun minni munur er á áfengisneysluvenjum kynjanna. Í rannsókninni er sýnt fram á að skiptingin í bjór-, vín- og brennivínslönd hefur verið byggð á áfengisneysluvenjum karla, og að svæðisbundinn munur á áfengisneyslumunstri á milli Norður-, Mið og Suður-Evrópu er ekki eins skýr og búist var við.
Hildigunnur Ólafsdóttir er er sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni. Hún er dr. philos. í afbrotafræði frá Háskólanum í Osló.