RIKK – Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands stóð vorið 2015 fyrir rannsókn á kynferðislegri áreitni gagnvart starfsfólki sem unnið hefur á veitingastöðum og/eða í hótel- og ferðaþjónustu síðastliðin 10 ár. Rannsóknin var unnin að beiðni Starfsgreinasambands Íslands. Samkvæmt beiðni RIKK gerði Félagsvísindastofnun spurningakönnun í netpanel Þjóðmálakönnunar sinnar í febrúar 2015. Upphaf verkefnisins má rekja til norrænnar samvinnu verkalýðsfélaga á þessu sviði og ráðstefnu um staðalmyndir og kynferðislega áreitni innan hótel-, veitinga- og ferðaþjónustunnar sem Starfsgreinasambandið ásamt systursamtökum á Norðurlöndum stóð fyrir í byrjun júní 2015. Í aðdraganda ráðstefnunnar var ljóst að skortur væri á rannsóknum á þessu sviði hér á landi og því leitaði Starfsgreinasambandið til RIKK um að ráðast í þetta verkefni. Sambærileg verkefni hafa verið unnin á hinum Norðurlöndunum, þó með nokkuð misjöfnum hætti.
Steinunni Rögnvaldsdóttur félags- og kynjafræðingur var fengin til að vinna úr gögnum Félagsvísindastofnunar og kynnti hún rannsóknina á ráðstefnunni en niðurstöðurnar benda til þess að 41% þeirra sem starfað hafa í þjónustustörfum einhvern tíma á síðustu 10 árum hafi orðið fyrir áreitni, 26,4% karmanna og 50,4% kvenna. Þjónustustörf eru hér skilgreind sem störf á veitingahúsi (þar með talið kaffihúsi eða skyndibitastað) á hótelum eða í annarri ferðaþjónustu. 67,8% þeirra sem orðið hafa fyrir áreitni voru yngri en 24ra ára þegar alvarlegasta atvikið átti sér stað (ef þau voru fleiri en eitt). Kynferðisleg áreitni hefur meiri áhrif á öryggistilfinningu kvenna heldur en karla og það hefur meiri áhrif á öryggistilfinninguna að vera áreitt(ur) af vinnufélaga eða yfirmanni heldur en af viðskiptavini. Í yfir 60% tilvika kynferðislegrar áreitni í rannsókninni var gerandi viðskiptavinur, karlar verða frekar fyrir áreitni af hálfu viðskiptavina heldur en samstarfsmanna en algengara er að konur verði fyrri áreitni af hálfu samstarfsmanna eða yfirmanna.