Kyn og loftslagsbreytingar

Föstudaginn 5. febrúar var málþingið Kyn og loftslagsbreytingar haldið í Háskóla Íslands, stofu 101 Lögbergi, kl. 14.30-16.45. Samstarfsaðilar um málþingið voru Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum, EDDA – öndvegissetur, Jafnréttisstofa og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.

Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem haldin var í Kaupmannahöfn í desember 2009 var Ísland heiðrað sérstaklega fyrir að halda kynjasjónarhorni á lofti í þeim samningaviðræðum sem þar áttu sér stað. Margir spyrja sig hvað kynjasjónarmið koma baráttunni gegn loftslagsbreytingum við. Svarið er þríþætt: Í fyrsta lagi hegða kynin sér misjafnlega og hafa þar með mismunandi áhrif á umhverfið. Konur sem neytendur og stjórnendur neyslu heimilanna geta haft önnur og meiri áhrif en karlar til umhverfisvænni neysluhátta.  Í öðru lagi hefur komið í ljós að konur verða verr úti í náttúruhamförum sem tengjast veðurfarsbreytingum en karlar. Í þriðja lagi blasir við sú staðreynd að á meðan loftslagsbreytingarnar varða líf og framtíð bæði kvenna og karla eru það fyrst og fremst karlar sem sitja við samningaborðin og móta framtíðarstefnu mannkyns. Á málþinginu var fjallað um ýmsar hliðar umræðunnar um loftslagsbreytingar út frá kynjasjónarhorni, frá heimskautsbaug til heitra Afríkulanda. Að loknum erindum voru pallborðsumræður.

Dagskrá:

Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður RIKK, flytur inngangsorð: „Stjórnmál og umhverfissjónarmið“

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flytur ávarp

Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu
„Kynjavíddir í alþjóðlegri umræðu um loftlagsbreytingar“

Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent í guðfræðilegri siðfræði
„Loftslagsbreytingar í guðfræðilegri siðfræði: Femínísk orðræða um lífvænan náttúruskilning“

Anna Karlsdóttir, lektor í mannvistarlandfræði og ferðamálafræði
„Strandbyggðir á Norðurslóðum“

Magnfríður Júlíusdóttir, lektor í mannvistarlandfræði.
„Loftslagsbreytingar og kynjuð þróunarorðræða um Afríku: Gamalt stef í nýjum umbúðum?“

Pallborðsumræðum stjórnar Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi umsjónarmaður námsbrautar í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ og formaður Félags umhverfisfræðinga á Íslandi

Fundarstjórn: Tryggvi Hallgrímsson, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu.

Málþingið var hljóðritað og flutt á Rás 1 í þættinum „Í heyranda hljóði“. Umsjón: Ævar Kjartansson. Hér má hlusta á þáttinn en hann var frumfluttur 2. mars 2010.

Hér er frétt Morgunblaðsins í tilefni af málþinginu.