15. mars flytur Sigríður Þorgeirsdóttir, lektor í heimspeki, erindið Kvenna megin.
Í rabbinu mun Sigríður kynna viðfangsefni femínískrar heimspeki með því að lýsa efni nýúkominnar bókar sinnar Kvenna megin. Greinar í femínískri heimspeki. Bókin er safn greina sem höfundur hefur skrifað á undanförnum árum um femíníska heimspeki. Hér er kynnt til leiks ung grein innan heimspekinnar sem hefur að markmiði að túlka heiminn á forsendum beggja kynja, og ekki einungis karla eins og heimspekingar hafa lengst af gert. Femínísk heimspeki sprettur upp úr kvenfrelsishreyfingum 20. aldar og leitast hún við að gera kynjamisrétti sýnilegt í því augnamiði að aflétta því báðum kynjum til góðs. Um leið leitast þessi heimspeki við að þróa hugsjón um mannlegri heim þar sem bæði kynin deila með sér ábyrgð og hafa jöfn tækifæri til frelsis.
Í greinum sínum víkur höfundur að ýmsum þeim viðfangsefnum þar sem sjónarhorn kvenna- og kynjafræða varpa ljósi á kynbundna afstöðu hefbundinna viðhorfa. Fjallað er um hlut heimilis og fjölskyldu í stjórnspekilegri umræðu, mannskilning siðfræðinnar, tvíhyggju hins karllega og kvenlega í vestrænni menningu, kenningar um merkingu líkamlegrar reynslu fyrir sjálfsmyndir kvenna og heimspekilegar hugmyndir um tilurð og mótun sjálfsverunnar. Komið er inn á helstu stefnur og strauma innan femínískrar heimspeki allt frá heimspeki Simone de Beauvoir um konur til afbyggingarkenninga 10. áratugarins.