Út er komin skýrsla um réttindi, líðan og stöðu hinsegin fólks á Íslandi sem RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum hafði yfirumsjón með fyrir jafnréttis- og mannréttindaskrifstofu dómsmálaráðuneytisins. Skýrslan er liður í aðgerðaráætlun stjórnvalda í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022 til 2025 og bar ábyrgð á framkvæmd verkefnisins þar sem lögð var áhersla á hið félagslega, líðan og aðstæður hinsegin fólks, þar á meðal stöðu aldraðra og öryrkja innan hinsegin samfélagsins og hinsegin fólks á landsbyggðinni.

Þorsteinn Vilhjálmsson, doktor í gagnrýnum fræðum er höfundur skýrslunnar sem byggir annars vegar á fyrirliggjandi gögnum úr þegar framkvæmdum og birtum rannsóknum frá undanförnum árum og hins vegar nýjum rannsóknum.

 

Þann 20. mars s.l. stóðu RIKK og dómsmálaráðuneytið stóðu fyrir opnu málþingi í Hannesarholti þar sem skýrslan var kynnt auk þess sem efnt var til pallborðs um efni hennar.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra og ráðherra jafnréttis- og mannréttinda opnaði málþingið og hélt erindi þar sem meðal annars kom fram hversu framarlega Íslendingar stæðu á heimsvísu þegar kemur að lagalegum réttindum hinsegin fólks þó gera mætti enn betur bæði í lagalegu tilliti og þegar kæmi að aðgerðum til að bæta líðan og aðstæður hinsegin fólks hér á landi. Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi fyrstu þingsályktunartillögunnar um aðgerðaráætlun í málefnum hinsegin fólks sem samþykkt var á Alþingi í júní 2022 og mælti fyrir um framkvæmd rannsókna á stöðu og réttindum hinsegin fólks á Íslandi. Boðaði ráðherra að vítt samráð yrði haft við áframhaldandi þróun áætlunar um bættar aðstæður hinsegin fólks og hvatti til þess að sem flestir tækju virkan þátt í stefnumótuninni.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra og ráðherra jafnréttis- og mannréttinda hélt opnunarerindi á málþinginu

Ráðherra sagði að rödd Íslendinga talaði skýrt þegar kæmi að mannréttindum og að íslensk stjórnvöld myndu sækja fram á sviði hinsegin réttinda bæði á Íslandi og alþjóðavísu nú þegar blikur væru á lofti í heiminum og víða mætti greina bakslag í réttindum fólks.

Höfundur skýrslunnar greindi frá helstu niðurstöðum hennar auk þess að fjalla um tillögur sem nefndar eru til að koma á úrbótum í málaflokknum. Í skýrslunni kemur fram að í þeim gögnum sem safnað hafi verið saman birtist önnur mynd af stöðu og líðan hinsegin fólks en formleg réttindi þess ein og sér segi til um og því sé ósamræmi á milli hinna framsæknu formlegu réttinda hinsegin fólks á Íslandi annars vegar og bágari reynslu hins vegar.

Þorsteinn Vilhjálmsson, höfundur skýrslunnar kynnti helstu niðurstöður hennar

Í skýrslunni kemur fram að auka þurfi fræðslu um hinseginleika svo draga megi úr fordómum, efla félagsstarf hinsegin fólks og bæta þannig líðan og stöðu þess, vinna gegn hatursglæpum með því að efna til aðgerða er vernda hinsegin fólk gegn hatursorðræðu og hatursglæpum, stuðla að aukinni samtvinnun í stað aðgreiningar, gera upp sögu hinsegin fólks, einkum alnæmisfaraldurinn sem enn hefur sterk áhrif á allt hinsegin fólk þó sértaklega þau sem eldri eru. Að lokum var bent á mikilvægi þess að auka rannsóknir með því til dæmis að hið opinbera styrkti fræðilegar rannsóknir á ýmsum sviðum hinseginleikans þar sem ríkir mikill skortur á þekkingu.

Að lokinni kynningu á efni skýrslunnar stýrði Arna Magnea Danks, leikkona og kennari, pallborðsumræðum. Auk Örnu Magneu tóku þátt í pallborðinu, Bjarndís Helga Tómasdóttir, formaður Samtakanna ´78, Bjarni Sæmundsson, leikari, Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar og Reyn Alpha Magnúsdóttir, forseti Trans Íslands.

Þátttakendur í pallborði frá vinstri: Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, Reyn Alpha Magnúsdóttir, forseti Trans Íslands, Bjarni Sæmundsson, leikari, Bjarndís Helga Tómasdóttir, formaður Samtakanna ´78, og Arna Magnea Danks, kennari og leikkona.

Þátttakendur í pallborðinu voru á sama máli, um leið og þau fögnuðu útfgáfu skýrslunnar væri fátt í henni sem kæmi á óvart. Þannig væru niðurstöður hennar staðfesting á upplifun hinsegin fólks af veruleika þeirra á Íslandi. Í umræðum þátttakanda speglaðist sá veruleiki sem fram kemur í skýrslunni að þrátt fyrir að Íslendingar standi framarlega hvað réttindi varðar sé þörf á ýmsum úrbótum. Til að mynda þurfi að bæta þjónustu og aðbúnað hinsegin eldra fólks, þróa námsefni og auka úrval þess á öllum skólastigum með hliðsjón af fjölbreytileika fólks, tryggja betur réttindi hælisleitenda, draga úr fordómum með aukinni fræðslu, sögum hinsegin fólks og stórauka rannsóknir af hendi hins opinbera og hvetja sérstaklega til fræðilegra rannsókna á þeim sviðum þar sem mikill skortur á þekkingu ríkir um málefni hinsegin fólks hér á landi.

 

Skýrsluna má nálgast hér.