Opin ráðstefna undir heitinu Konur og Balkanstríðin var haldin á vegum Rannsóknarstofu í kvennafræðum í Hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 2. mars kl. 14.00. Þátttakendur voru þrjár konur frá Balkanskaga: Zarana Papic, aðstoðarprófessor í mannfræði við Háskólann í Belgrad, Vesna Kesic, félagsfræðingur og sálfræðingur frá Króatíu og Vjollca Krasniqi, bókmennta- og félagsfræðingur frá Kosovo.
Í tilefni ráðstefnunnar komu einnig tvær kvikmyndagerðarkonur til landsins, þær Susan Muska og Gréta Ólafsdóttir sem hafa getið sér gott orð fyrir heimildamyndina The Brandon Teena Story en þær hafa nú um árabil unnið að heimildamynd um konur í stríðinu á Balkanskaga. Myndin er enn í vinnslu en valin myndskeið voru sýnd á ráðstefnunni.
Konurnar þrjár frá Balkanskaga eru allar þekktar á alþjóðavettangi, ekki síst þær Papic og Kesic. Þær hafa beint sjónum að þjóðernishyggju í skrifum sínum, gjarnan út frá feminísku sjónarhorni, og hafa verið virkar í samtökum sem hafa beitt sér gegn stríðsátökunum á Balkanskaga og í þágu fórnarlamba. Þær fjölluðu um pólitískt ástand á Balkanskaga og lögðu sérstaka áherslu á reynslu kvenna af stríðunum í fyrrverandi Júgóslavíu. Þær héldu inngangserindi, en síðan voru pallborðsumræður þar sem áheyrendum gafst tækifæri til að spyrja þær spurninga.
Papic er höfundur þriggja bóka og fjölda greina um mannfræði og feminisma. Hún vinnur nú að rannsóknum á serbneskri þjóðernishyggju, stríði og feðraveldi og stöðu kvenna í Austur-Evrópu eftir hrun kommúnismans. Í skrifum sínum hefur Kesic sérstaklega skoðað ofbeldi gegn konum í stríðunum á Balkanskaga og samspil þjóðernishyggju og nauðgana. Hún hefur mikla reynslu af því að veita stríðsfórnarlömbum sálfræðiráðgjöf og var stofnandi B.a.B.e. kvenfrelsis- og mannréttindasamtakanna, þeirra fyrstu sinnar tegundar í Króatíu árið 1994. Hún hefur fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín í þágu kven- og mannréttindabaráttu í Króatíu. Krasniqi hefur rannsakað stöðu kvenna í Kosovo og er nú að vinna að bók um Kosovo-stríðið og nauðungarflutninga út frá reynslu kvenna.
Ráðstefnunni Konur og Balkanstríðin er ætlað að stuðla að upplýstri almennri umræðu um ástandið á landsvæðum fyrrum Júgóslavíu en um þessar mundir fer fram mikil umræða í Evrópu um stöðu Balkanskaga í álfunni. Fræðikonurnar þrjár telja nauðsynlegt að tekið sé mið af reynslunni af stríðsátökunum, með áherslu á hlutskipti kvenna, og efnt sé til samræðna milli ólíkra hugmyndaheima í þeirri viðleitni að endurreisa stríðshrjáð lönd eftir langvarandi átök. Þau Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Rannsóknastofu í kvennafræðum og Valur Ingimundarson, sagnfræðingur, hafa skipulagt ráðstefnuna, en meðal styrktaraðila eru Háskóli Íslands, Reykjavíkurborg, utanríkisráðuneyti, menntamálaráðuneyti og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
Ráðstefnan verður haldin, sem fyrr segir, þ. 2. mars í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 14.00.