Arnfríður Guðmundsdóttir, lektor við guðfræðideild, verður með rabb á vegum Rannsóknastofu í kvennafræðum næstkomandi fimmtudag, 14. febrúar, í Norræna húsinu kl. 12-13. Umræðuefnið er konur í kristshlutverkum í kvikmyndum.
Í þessu rabbi verður fjallað um einkenni kristsgervinga og tekin dæmi af þekktum kvenpersónum í tveimur nýlegum myndum, þeim systur Helen í Dead Man Walking og Bess í Breaking the Waves, en báðar hafa þær oft verið nefndar sem dæmi um kristsgervinga. Færð verða rök fyrir því að systur Helen megi réttilega kalla kristsgerving, á meðan réttara væri að tala um Bess sem neikvæðan kristsgerving, sem gerir tilkall til samanburðar við frásögn guðspjallanna en felur í sér andhverfu við frelsunar- og kærleiksboðskap Krists. Bess er holdgerving hefðbundinna hugmynda um fórnareðli kvenna. Í Breaking the Waves er fyrirmyndin af hinni fórnfúsu konu upphafin, en þar koma einnig vel fram þau skaðlegu áhrif sem krafan um sjálfsfórn kvenna hefur oft haft í för með sér.