Unnur Birna Karlsdóttir er fjórði fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2020 og nefnist fyrirlestur hennar „Konan sem kannaði leyndardóma jöklanna. Dr. Emmy Todtmann og rannsóknir hennar á Íslandi“. Fyrirlesturinn verður rafrænn og stofnaður hefur verið viðburður á Facebook þar sem hann verður birtur fimmtudaginn 10. desember. Upptaka af fyrirlestrinum verður einnig gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og youtube-rás Hugvísindasviðs.
Rannsóknin beinist að heimildum um ferðir vísindakonu að nafni Emmy Mercedes Todtmann. Hún stundaði rannsóknir á skriði jökla á Íslandi, sunnan og norðan Vatnajökuls, á tímabilinu frá fjórða til sjötta áratug 20. aldar. Hlé varð á komum hennar til Íslands á árum seinni heimstyrjaldarinnar en svo kom hún aftur og dvaldi við rætur skriðjökla Vatnajökuls að rannsóknum sínum. Markmiðið er að rýna í hvort og þá hvernig rannsóknir hennar og skrif, bæði hennar eigin um ferðir sínar og annarra um þær, endurspegla viðhorf til náttúrufarsbreytinga og sambúðar manns og náttúru, enda eru rannsóknir hennar undanfari að samtímarannsóknum á hegðun og hopi jökla hér á landi. Þær hafa því skírskotun í umræðu samtímans um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Dr. Todtmann vann að rannsóknum sínum á tímum þegar óvanalegt þótti að konur stunduðu slíkt, hvað þá lengst inni á íslenskum öræfum. Litið verður til þess hvort einhver og þá hvaða viðhorf birtust hér á landi til hennar í þessu sambandi.
Unnur Birna Karlsdóttir er með doktorsgráðu í sagnfræði. Hún er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi og gegnir jafnframt rannsóknastöðu við setrið. Megináhersla rannsókna hennar síðastliðinn áratug hefur verið umhverfissögulegur, á tengsl manns og náttúru, og birst í ýmsum greinum á ritrýndum vettvangi. Hennar stærstu rannsóknarit eru Þar sem fossarnir falla. Um náttúrusýn og nýtingu fallvatna á Íslandi 1900-2008 (2010) og Öræfahjörðin. Saga hreindýra á Íslandi (2019).
Hádegisfyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2020 er tileinkuð femínískri sýn á loftslagsvandann.