Föstudaginn 7. mars flytur Elín Björk Jóhannsdóttir, MA í almennri bókmenntafræði, fyrirlestur sem ber heitið „„Kona sem átti að vera einsog kókflaska í laginu“ – Mávahlátur og átraskanir“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12:00-13:00.
Í skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur, Mávahlátri, frá 1995 er sjúkdómur annarrar aðalpersónunnar, Freyju, í senn falinn og hjúpaður þögn. Sjúkdómurinn er lotugræðgi og meðferð hans í verkinu kallast á við þá þöggun sem einkennt hefur átraskanir. Í erindinu verður varpað ljósi á tengsl ögunar kvenlíkamans, breyttra neysluvenja og átraskana einsog þau birtast í verkinu. Enn fremur verður skoðað hvernig áhrif ögunar kvenlíkamans sem endurspeglast í átröskun Freyju birtast einnig í öðrum kvenpersónum í verkinu, sér í lagi Öggu en hún er í þann mund að stíga inn í kvennaheiminn með öllu því sem honum fylgir.
Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.
Öll velkomin!