Æsa Sigurjónsdóttir er annar fyrirlesari hádegisfyrirlestraraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á vormisseri 2023 en röðin er tileinkuð afnýlenduvæðingu. Fyrirlestur Æsu nefnist „Hvítleikinn í íslenskri samtímalist“ og verður haldinn kl. 12.00 miðvikudaginn 8. febrúar í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn er einnig á dagskrá Jafnréttisdaga.
Hvítleikahugtakið hefur sjaldan verið notað í myndlistargagnrýni á Íslandi þrátt fyrir að fræðimenn hafi um nokkurt skeið beitt því til að afhjúpa kynþáttahyggju og karllægar staðalímyndir tungumáls og íslenskrar menningar. Í erindinu verða verk þeirra Bryndísar Björnsdóttur, Steinunnar Gunnlaugsdóttur, Ólafar Nordal, Magnúsar Sigurðarsonar og Ragnars Kjartanssonar rædd út frá þessu sjónarhorni. Athugað verður hvernig þau kanna menningarsöguna og varpa ljósi á tengsl hvítleikans við sjálfsmyndarsköpun og auðkenningu íslenskrar menningar í fjölþættu samhengi ímynda og landkynningar. Höfundur mun greina tákn hvítleikans í listum og sjónmenningu í ljósi þjóðernishyggju og kynþáttafordóma og skoða hvernig listamennirnir taka í sundur þjóðernistáknin og kanna hvítleika hins þjóðlega myndmáls.
Æsa Sigurjónsdóttir er dósent í listfræði við Háskóla Íslands og sýningarstjóri. Hún hefur um árabil rannsakað íslenska samtímalist, myndlistarsögu, og stýrt listsýningum hérlendis og erlendis. Rannsóknir hennar á mótun þjóðernislegra sjálfsmynda í myndlist, tísku og sjónmenningu hafa birst í bókum, fræðiritum og ritrýndum tímaritsgreinum. Auk þess hefur Æsa tekið þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum, svo sem Rannísverkefninu Vísitasíur. Ísbirnir á villigötum ásamt listamönnunum Bryndísi Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson. Rannsókn Æsu á tengslum myndlistar og femínisma á Íslandi birtist nýlega í greininni „The Guerilla Paradigm or „Feminist-Avant-Garde“. Towards an Alternative Feminist Canon“, í ritinu A Cultural History of the Avant-Garde in the Nordic Countries Since 1975 (Brill 2022).
Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg á Youtube. Fyrirlestraröðin er haldin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.