Ása Fanney Gestsdóttir

Ása Fanney Gestsdóttir er sjöundi og síðasti fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2018 og nefnist fyrirlestur hennar „Hvar liggja mörkin? Kynhlutverk og grá svæði í sviðslistum“. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 29. nóvember, kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.

Leikkonur hafa víða verið fremstar í fylkingu #MeToo hreyfingarinnar og frásagnir þeirra af kynferðislegri áreitni og ofbeldi í greininni verið áberandi í umræðunni í kjölfarið. Lengi vel virðist hafa ríkt þöggun um þetta kynbundna vandamál í sviðslistum og kvikmyndagerð sem þó hefur verið á margra vitorði. Í fyrirlestrinum verður fjallað um fyrirliggjandi erlendar rannsóknir og íslenskar #MeToo frásagnir. Leitast verður við að greina hvað einkennir starf og starfsvettvang leik- og sviðslistakvenna auk kynhlutverka og valdastöðu sem veldur því að kynferðisleg áreitni hefur viðgengist á vettvanginum.

Ása Fanney Gestsdóttir er með MA-próf í menningarstjórnun og fjallaði meistararitgerð hennar um starfsvettvang íslenskra óperusöngvara með hliðsjón af hugtakalíkani franska félags-, mann- og heimspekingsins Pierre Bourdieu. Ása hefur einnig lokið prófi í óperusöng og starfað í sviðslistum bæði hérlendis og erlendis um árabil. Hún vinnur nú að rannsókn um jafnrétti í sviðslistum á vegum RIKK og Sviðslistasambands Íslands.

Finndu viðburðinn á Facebook!

Fyrirlesturinn er fluttur á íslensku og er öllum opinn og aðgangur ókeypis.

***

Fyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2018 er tileinkuð byltingu kvenna gegn áreitni og ofbeldi og þeim viðbrögðum, rannsóknum og aðgerðum sem af henni hafa hlotist og verður leitast við að rýna í ástæður, eðli og afleiðingar #MeToo-byltingarinnar frá margvíslegum sjónarhornum.

Hádegisfyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2018 er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.