Föstudaginn 6. mars flytur Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum við Háskóla Íslands fyrirlesturinn „Hvað vildu þær — hefðu þær verið spurðar?“ í Hátíðarsal Háskóla Íslands kl. 12-13.
Ömmur Dagnýjar, Ólína Kristín Snæbjörnsdóttir (1879-1964) og Þórunn Magnúsdóttir (1878-1960), voru ólíkar konur en nánast jafn gamlar, báðar bráðgreindar en höfðu fáa möguleika í lífinu. Dagný spyr sig hvað þær hefðu viljað verða ef þær hefðu átt valkosti kvenna í dag og leitast við að svara því í fyrirlestri sínum.
Ólína var prestsfrú á Stað á Reykjanesi. Hún stjórnaði stóru heimili, þrjú börn komust upp auk fósturbarna sem ólust upp á Stað. Þar var mikið var um gestakomur og mikil risna. Ólína var alin upp í Hergilsey á Breiðafirði, annáluð hannyrða- og sögukona.
Þórunn var ljósmóðir á Keisbakka á Skógarströnd. Umdæmi hennar var stórt og mjög erfitt og heilsa hennar var farin að gefa sig fyrir fimmtugt. Fjögur af fimm börnum hennar lifðu.
Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni „Margar myndir ömmu“ sem RIKK heldur í samstarfi við Þjóðminjasafnið og styrkt er af framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.
Viðburðurinn er öllum opinn og er á Facebook.