Auður Aðalsteinsdóttir er annar fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2020 og nefnist fyrirlestur hennar „„hún hafði fullar gætur á örlögunum og allri eyjunni“. Karlar, konur og náttúra í verkum Gyrðis Elíassonar og Tove Jansson“. Fyrirlesturinn verður rafrænn og stofnaður hefur verið viðburður á Facebook þar sem hann verður birtur fimmtudaginn 8. október.
Að fyrirlestri loknum verður upptakan gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og youtube-rás Hugvísindasviðs.
Í Sandárbókinni, Suðurglugganum og Sorgarmarsinum tekst Gyrðir Elíasson á við karllega hefð skrifa um einmana snillinga og einangrun í náttúrunni og tengir m.a. umhverfisvanda samtímans. Hann leitar ekki síst í smiðju stóuspekinnar og er ekki sá eini sem reynir að tengja þá heimspeki umhverfisverndarumræðu með því að breyta mannhverfri áherslu hennar. Í fyrirlestrinum verður fjallað um fjarlægð og fjarveru kvenna í þríleiknum í ljósi stóuspeki og femínískrar vistrýni og með samanburði við Sumarbókina og fleiri verk eftir Tove Jansson.
Auður Aðalsteinsdóttir er með doktorsgráðu í almennri bókmenntafræði. Hún er nú ritstjóri við Háskólaútgáfuna en hefur einnig starfað sem blaðamaður og ritstjóri á ýmsum fjölmiðlum, við þáttagerð í útvarpi og sem stundakennari í bókmenntafræði og menningarfræði.
Hádegisfyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2020 er tileinkuð femínískri sýn á loftslagsvandann.