Kristín Jónsdóttir sagnfræðingur flutti hádegisfyrirlestur í Norræna húsinu fimmtudaginn 23. nóvember kl. 12.15 undir titlinum Hlustaðu á þína innri rödd – Kvennaframboð og Kvennalisti í Reykjavík.
Nú eru liðin 25 ár frá því að tólf konur boðuðu til fundar á Hótel Borg hinn 14. nóv. 1981 til að kanna undirtektir við framboð kvenna til sveitastjórnar í Reykjavík vorið 1982. Fundurinn var upphafið að stofnun Kvennaframboðsog síðar Kvennalista, sem sátu næstu 12 árin í borgarstjórn og 16 ár á Alþingi. Í fyrirlestrinum sem byggður er á MA ritgerð Kristínar gerði hún fyrst og fremst grein fyrir tímabilinu 1981-1987 þegar Kvennalistinn vann sinn stærsta kosningasigur. Fyrirlesturinn lýsti aðdragandanum, hugmyndafræði, skipulagi og svo þeim dramatísku átökum sem áttu sér stað vegna stofnunar Kvennalistans. Kristín Jónsdóttir lauk BA prófi í íslensku og sagnfræði og MA í sagnfræði frá Háskóla Íslands 2005. Hún stundaði framhaldsnám í tölvunarfræði við Háskólann í Kent 1986-1987.