Hjónabandið – fyrir hverja?

Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands og Guðfræðistofnun Háskóla Íslands efna til málþings undir heitinu Hjónabandið – fyrir hverja? föstudaginn 17. febrúar kl. 13.30-16.00. Málþingið fer fram í hátíðarsal Háskóla Íslands.

Hjónabandið er ævaforn stofnun sem tekið hefur á sig margvíslegar myndir í tímans rás. Öldum saman var hjónaband fyrst og fremst byggt á hagsmunatengslum, þar sem foreldrar (feður) ráðstöfuðu börnum sínum til að byggja upp valdatengsl innan sinnar stéttar eða þá að dætur voru einfaldlega gefnar/seldar þeim sem best bauð. Íslensk tunga vitnar um þetta fyrirkomulag þegar talað er um brúðkaup. Það eru aðeins um tvær aldir síðan farið var að viðurkenna að karlar og konur í Evrópu ættu rétt á að velja sér maka sjálf. Víða um heim tíðkast enn að foreldrar semji um hjónabönd barna sinna, jafnvel barnungra. Það er stefna Sameinuðu þjóðanna að banna þvinguð hjónabönd og barnagiftingar.

Innan kristinnar kirkju er löng hefð fyrir því að líta á hjónabandið sem hluta af skikkan skaparans. Sú hugmynd byggist á sköpunarsögu 1. Mósebókar, þar sem talað er um að Guð hafi skapað manninn í sinni mynd, karl og konu, sem hafi fengið það hlutverk að vera frjósöm og uppfylla jörðina, en jafnframt að sinna umönnunarhlutverki gagnvart sköpunarverkinu í heild sinni. Það hefur lengi tíðkast að prestar biðji um blessun Guðs yfir hjónaefnum í sérstakri athöfn. Hér á landi er þessi athöfn ekki aðeins kirkjuleg heldur um leið lögformleg athöfn til löggildingar hjúskaparsáttmálans.

Á málþinginu verður hjónabandið skoðað frá ýmsum hliðum. Spurt er um eðli hjónabandsins og hlutverk. Fyrir hverja er hjónabandið og í þágu hverra? Hjónabandinu fylgja bæði réttindi og skyldur, en deilt er um hvort það sé fyrst og fremst mikilvæg valdastofnun sem viðheldur valdi karla, eða eins konar tryggingamiðstöð fyrir konur. Þá er hugað að þróun hjónabandsins og hvaða þýðingu það hefur haft í ljósi sögunnar? Hvers vegna er hjónabandið einskorðað við samband karls og konu og er ástæða til að halda því þannig? Spurningarnar eru óteljandi en tilgangur málþingsins er að skoða hjónabandið út frá sjónarhóli hinna ýmsu fræðasviða og vera þannig innlegg inn í þá umræðu sem nú er áberandi í samfélaginu.

Dagskrá:

Sólveig Anna Bóasdóttir: Hjónabandið – viðhorf og vandi – Siðfræðilegar hugleiðingar
Kristín Þórunn Tómasdóttir: Krísa á kristniboðsakrinum. Lútherskar kirkjur kljást við hjónabandið
Már Jónsson: Hjónavígsluskilyrði á 17. öld
Gyða Margrét Pétursdóttir: Hjónabandið: Hann frjáls sem fuglinn, hún rígbundin í báða?
Sigurður Árni Þórðarson: Kirkjuviðmið og hjónavígslur samkynhneigðra.