Linda Sólveigar- og Guðmundsdóttir flytur fjórða fyrirlestur hádegisraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands á haustmisseri 2022 en yfirskrift raðarinnar er sú sama og á vormisseri: Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi. Fyrirlestur Lindu nefnist „Hinsegin fólksflutningar. Þverþjóðleg hinsegin þjóðernishyggja og stigveldi innflytjenda á Íslandi“ og verður haldinn kl. 12.00 fimmtudaginn 27. október í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og sýndur í beinu streymi.
Fyrirlesturinn byggir á rannsókn sem kannar þrjá aðskilda en tengda hópa hinsegin fólksflutninga til Íslands, það er, frá hinu hnattræna Suðri, hinu hnattræna Norðri og Mið- og Austur-Evrópu. Niðurstöðurnar sýna að það að stjórna upplýsingum varðandi kynhneigð og kynvitund getur verið áskorunum, í hvaða samhengi sem er. En ferli kynþáttunar og framandgerving innflytjanda virðist í sumum tilfellum ómögulegt að yfirstíga. Þessi öðrun innflytjenda er innbyggð í stigveldi kynþátta, menningar og stétta, þar sem hvítir innflytjendur frá hinu hnattræna Norðri upplifa inngildingu og það að tilheyra ólíkt þeim sem ekki eru hvítir á hörund og frá hinu hnattræna Suðri. Á sama tíma er innflytjendum frá Mið- og Austur-Evrópu í mörgum tilfellum sjálfkrafa eignuð óæðri staða í samfélaginu, samanborið við aðra hvíta innflytjendur. Í fyrirlestrinum er fjallað um hvernig þverþjóðleg hinsegin þjóðernishyggja og stigveldi framandgervingar birtist í íslensku samhengi, og tengist kenningum um skörun, hnattrænt stigveldi verðmætamats, gagnrýnni kynþáttakenningu og hvítleika, sem og pólitískum verkefnum vaðandi það að tilheyra og tilfinningunni að tilheyra.
Linda Sólveigar- og Guðmundsdóttir er doktorsnemi í mannfræði við Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn er unninn upp úr doktorsritgerð hennar sem fjallar um reynslu hinsegin innflytjenda af því að tilheyra í íslensku samfélagi, í hinsegin samfélaginu og í sínu etníska samfélagi. Linda er einnig rannsakandi í verkefninu Hinsegin flóttafólk í hinsegin paradís: Félagsleg inngilding og útskúfun, sem er styrkt af Rannís og unnið í samstarfi við RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum og QUEEN – Rannsóknarsamstarf um hinsegin flóttafólk á Norðurlöndunum.
Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg að honum loknum.