Föstudaginn 17. október flytur Erna Kristín Blöndal, doktorsnemi í lögfræði við Háskóla Íslands, erindið „Leit flóttamanna að vernd. Lifa aðeins hinir hæfustu af?“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins kl. 12:00–13:00.
Margir flóttamenn neyðast til að leggja upp í langa og hættulega ferð til að komast í öruggt skjól frá ofsóknum, átökum og ofbeldi í heimaríki. Það sem af er 2014 hafa yfir þrjú þúsund flóttamenn farist á Miðjarðarhafinu í tilraun til að komast til Evrópu. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur biðlað til Evrópuþjóða að gera meira til þess að hjálpa flóttamönnum að ná til Evrópu. Þetta á ekki síst við um þá einstaklinga sem teljast vera í viðkvæmri stöðu líkt og fylgdarlaus börn, einstæðir foreldrar, barnafjölskyldur, aldraðir og veikir einstaklingar og einstæðar konur.
Aðeins þeir flóttamenn sem komast til Evrópu geta sótt um vernd þar en færa má rök fyrir því að það sé ekki endilega alltaf þeir sem mest þurfi á hjálp og vernd að halda. Í fyrirlestrinum mun Erna fjalla um það hvort flóttamenn í veikri stöðu, t.d. konur og börn, eigi jafna möguleika á því að komast hina erfiðu og hættulegu leið til Evrópu. Hyglir kerfið þeim sterku og ef svo er, hvernig er hægt að ná auknu jafnrétti í vernd flóttafólks?
Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands og er hluti af Jafnréttisdögum í HÍ.
Öll velkomin!