Föstudaginn 16. janúar kl. 12-13 verða fyrstu fyrirlestrar í fyrirlestraröð RIKK , „Margar myndir ömmu“, á vormisseri 2015 sem tileinkuð er 100 ára kosningarétti kvenna á Íslandi. Fyrirlestrarnir eru haldnir í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins.
Það eru þær dr. Erla Hulda Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og dr. Irma Erlingsdóttir, dósent í frönskum samtímabókmenntum sem hefja dagskrána en einnig ætlar Bjarki Karlsson að lesa kvæði.
Fyrirlestur Erlu Huldu nefnist „Hvers vegna amma? Saga og sjónarhorn.“ Í fyrirlestrinum ræðir hún um aðferðafræði og kenningar í sambandi við ‚ömmusögu‘. Hvað þýðir það að skrifa um ömmu? Hvaða kosti hefur það og hvað ber að varast? Erlendis hafa sögur af ömmum og formæðrum verið notaðar til þess að varpa ljósi á aðra þætti þjóðarsagna en þá sem teljast til hins sögulega kanóns (reglurita í sögu) og það hvort og hvernig almenningur, í þessu tilfelli konur, samsama sig slíkri sögu. Inn í þessa aðferðafræðilegu og kenningarlegu umfjöllun stíga eftir því sem við á formæður Erlu Huldu, sem voru húsmæður til sveita með stóra barnahópa, enga þvottavél og vinnukonur sem ‚lentu‘ upp í hjá kvæntum húsbændum sínum.
Í fyrirlestri sínum „Sagan, endurskrif og uppskafningur“ veltir Irma fyrir sér hvernig segja megi sögur af ömmum og langömmum. Hún styðst við leikritið Sagan (sem við munum aldrei þekkja) eftir franska femínistann og rithöfundinn Hélène Cixous þar sem sett er á svið aðferðafræðileg eða skáldskaparfræðileg kenning um það hvað þurfi að eiga sér stað til að ósagðar sögur, hið ósagða í sögunni, sé sagt eða skráð. Þar gegnir mikilvægu hlutverki persóna sem ber nafnið Edda og er sögð vera amma: Hún stendur fyrir Söguna sem var sögð en sem þarf jafnframt að endursegja. Það vekur þá spurningu hvernig segja beri söguna — eins og hún hefur verið sögð eða eins og hún hefði getað orðið? Irma mun einnig hafa í farteskinu örsögur af ömmum sínum og langömmum, einkum Guðrúnu frá Holti sem virðist ekki hafa verið minni hetja en eiginmaður hennar Stjáni blái en um hann var ort: „Hörð er lundin, hraust er mundin, hjartað gott, sem undir slær.“
Bjarki Karlsson les svo kvæði sitt „Einn afar sorglegur flokkur um það grátlega kynjanna misrétti sem forðum tíðkaðist og þekkist því miður enn“ þar sem hann gerir örlögum ömmu, sem bjó á Bakka með honum afa sem fór um sveitir á Rauð sínum, réttmæt skil.