Fimmtudaginn 31. október flytur Ólöf Garðarsdóttir, prófessor í sagnfræði á menntavísindasviði, fyrirlestur sem ber heitið „Framhaldsskólasókn innflytjenda og annarra einstaklinga með erlendan bakgrunn á Íslandi“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12:00-13:00.
Undanfarna tvo áratugi hefur fólki með erlendan bakgrunn fjölgað ört hér á landi. Þetta á bæði við um innflytjendur, börn innflytjenda og fólk af blönduðum uppruna. Lengi vel voru börn fá meðal einstaklinga af erlendum uppruna en þetta hefur tekið örum breytigum á allra síðustu árum. Borin verður saman framhaldsskólasókn innflytjenda, einstaklinga af blönduðum uppruna og Íslendinga. Rannsóknir leiðir í ljós að staða ungmenna af erlendum uppruna er afar slæm hér á landi og mun verri en meðaltal Evrópusambands- og EES landanna gefur til kynna. Verst er staðan meðal innflytjenda, einkum meðal drengja. Þannig höfðu 60% allra karla í hópi innflytjenda sem bjuggu hér við lok grunnskóla ekki lokið námi á framhaldskólastigi við 22 ára aldur. Þetta er nær helmingi hærra hlutfall en meðal Íslenskra jafnaldra þeirra.
Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.
Öll velkomin!