Rikkhnappur_13.03.01Föstudaginn 3. maí flytja Katla Kjartansdóttir og Kristinn Schram, þjóðfræðingar, fyrirlestur sem ber heitið „Framandleikar: Leikræn framsetning þjóð- og kyngerva Norðursins“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12:00-13:00.

Á hverjum degi sköpum við, og upplifum, margvíslegar framsetningar hvers kyns sjálfsmynda og ímynda, hvort sem um er að ræða persónulegar og/eða þjóðernislegar. Slíkar framsetningar, sem oftar en ekki eru leikrænar, mótast m.a. gegnum neyslumynstur, matarhætti, frásagnir og fatnað á hversdagssviðinu en á hinu opinbera sviði birtast þær okkur til dæmis í sjónrænum miðlum, s.s. auglýsingum og bíómyndum.  Í fyrirlestrinum munu Katla og Kristinn varpa ljósi á samspil þjóð- og kyngervis, þ.e.a.s. hvar og hvernig slík leikræn framsetning fer fram og hvaða áhrif hún hefur á ímyndir og sjálfsmyndir einstaklinga.  Nýverið hafa þau stundað vettvangsrannsóknir meðal Íslendinga sem búsettir eru í Skandinavíu og munu þau einkum greina frá niðurstöðum þeirra rannsókna.

 

Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.

 

Öll velkomin!