Fléttur VII. Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi er sjöunda ritið í ritröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands.
Fléttum er ætlað að kynna niðurstöður jafnréttisrannsókna og koma á framfæri fræðilegum greinum um kynja- og kvennafræði, feminísma og jafnréttismál í víðum skilningi.
Hér birtast tíu greinar á sviði jafnréttis- og hinsegin rannsókna þar sem ýmsar hliðar hinsegin málsefna á Íslandi eru skoðaðar í alþjóðlegu samhengi. Greinarhöfundar rýna í aðstæður hinsegin fólks á Íslandi: réttindi intersex fólks eru greind, varpað ljósi á ofbeldi og mismunun gegn jaðarsettum hópum innan hinsegin samfélagsins, hinsegin fjölskyldur skoðaðar út frá áhrifum nýfrjálshyggju auk þess sem fjallað er um viðhorfabreytingu í íslensku samfélagi.
Í þessu greinasafni er sjónum einnig beint að mismunandi flötum sögu og menningar frá hinsegin sjónarhorni. Hugtakið lífsförunautar er mátað við samband tveggja kvenna sem héldu saman heimili snemma á síðustu öld, hugað er að viðtökum Taílandsþríleiks Megasar og hinsegin þræðir raktir í skáldverkum Knuts Hamsuns, Halldórs Laxness og Hallgríms Helgasonar. Síðast en ekki síst er rýnt í tungumálið og meint kynhlutleysi orðsins maður.
Ritstjórar bókarinnar eru Ásta Kristín Benediktsdóttir og Elín Björk Jóhannsdóttir. Höfundar greina eru Daniela Alaattinoğlu, Linda Sólveigar- og Guðmunds, Eyrún Eyþórsdóttir, Hjörvar Gunnarsson og Jón Ingvar Kjaran, Sigrún Ólafsdóttir, Silja Bára Ómarsdóttir og Sunna Símonardóttir, Eiríkur Rögnvaldsson, Íris Ellenberger og Auður Magndís Auðardóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Þorsteinn Vilhjálmsson og Rósa María Hjörvar.
RIKK gefur bókina út í samstarfi við Háskólaútgáfuna og er hún fáanleg prentuð og sem rafbók á heimasíðu útgafunnar.