Fléttur VI. Loftslagsvá og jafnrétti er sjötta ritið í ritröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum. Í bókinni er fjallað um loftslagsvá út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Rýnt er í margþætt tengsl loftslagsbreytinga, kynjajafnréttis og samfélagslegs réttlætis með það að markmiði að stuðla að víðtækari skilningi á þessu stærsta viðfangsefni samtímans. Efnið er kannað bæði frá íslensku sjónarhorni og alþjóðlegu. Fjallað er um femíníska vistrýni og henni beitt í bókmenntagreiningu, dregnar eru fram raddir og sögur kvenna á ólíkum tímum og sjónum beint að loftslagskvíða. Enn fremur er femínískum greiningartækjum beitt til að greina tengsl loftslagsbreytinga við feðraveldi, nýlendustefnu, kapítalisma, stéttaskiptingu og kynþáttahyggju með sérstakri áherslu á samtvinnun.

Ritstjórar bókarinnar eru Elín Björk Jóhannsdóttir, Auður Aðalsteinsdóttir og Hafdís Hanna Ægisdóttir. Auk formála eru 9 greinar í Fléttum VI. Höfundar greina eru Angela Rawlings, Auður Aðalsteinsdóttir, Hólmfríður Garðarsdóttir, Katarina Leppänen, Margrét Gunnarsdóttir, Ole Martin Sandberg, Sigrún Ólafsdóttir, Soffía Auður Birgisdóttir, Sóllilja Bjarnadóttir og Unnur Birna Karlsdóttir. Bókin hlaut styrk úr Jafnréttissjóði Íslands og kom út árið 2024 en útgáfan tilheyrir 2023.

Fléttur er ritröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands. Fléttum er ætlað að kynna niðurstöður jafnréttisrannsókna og koma á framfæri fræðilegum greinum um kvenna- og kynjafræði, femínisma og jafnréttismál í víðum skilningi.

Bókin er fáanleg prentuð og sem rafbók á heimasíðu Háskólaútgáfunnar, bæði í heild sinni og sem stakir kaflar.

 

Greinar og ágrip þeirra má sjá hér að neðan:

 

Auður Aðalsteindóttir: „Ástkonur, eyjar og blek“: Vistfemínismi í verkum Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur og Tove Jansson

Í greininni er rýnt í vistfemínísk einkenni í skáldverkum eftir Tove Jansson frá áttunda áratug 20. aldar og Oddnýju Eirar Ævarsdóttur frá öðrum áratug 21. aldar í því augnamiði að sýna hvernig áherslur vistfemínismans, sem mótuðust fyrir um hálfri öld, megi enn greina í samtímaverkum þótt hann hafi einnig þróast í nýjar áttir. Sérstakri athygli er beint að eyja- og gyðjumyndmáli í þessu samhengi auk þess sem mikilvægi grundvallarhugmynda vistfemínismans í loftslagskrísu samtímans er áréttað.

 

Ole Martin Sandberg: Loftslagskrísan og „rökvísi karllægrar verndar“

Í „The Logic of Masculinist Protection“ (Rökvísi karllægrar verndar, 2003) setur femíníski heimspekingurinn Iris Marion Young fram greiningu á því sem gerist þegar stjórnmálamenn virkja ótta og stilla sjálfum sér upp sem velviljuðum verndurum borgaranna. Þessi grein Young um pólitíska andrúmsloftið í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum 11. september 2001 á ekki síður við í dag, þar sem við búum við enn stærri ógn í formi loftslagskrísunnar. Í þessari grein færi ég rök fyrir því að margar hliðstæður sé að finna milli pólitísks áróðurs og annarra einkenna í „stríðinu gegn hryðjuverkum“ í byrjun aldarinnar og seinni tíma viðbragða við loftslagsvandanum. Óttinn við eftirlitslausa fólksflutninga, „þrotríki“ og ofbeldi af hálfu annarra en ríkisins er nú notaður til að réttlæta loftslagsaðgerðir. Þessi framsetning er tilfinningaleg og virkjar ótta, meðal annars ótta við breytingar, sem er hagnýttur af þeim sem lofa vernd og stöðugleika í heimi sem einkennist af glundroða og óreiðu. Eins og grein Young sýnir þá er slík vernd ekki ókeypis: Henni fylgir krafa um hlýðni borgaranna á meðan stjórnvöld víkka út valdsvið sitt til að vernda okkur fyrir „ytri“ ógnum og heita því jafnframt að varðveita lífshætti okkar. Hins vegar getur þessi rökvísi ekki leyst þann vanda sem stafar af núverandi lífsháttum okkar.

 

Unnur Birna Karlsdóttir: Hún helgaði jöklunum líf sitt: Íslandsleiðangrar Emmyar Mercedes Todtmann

Í greininni er fjallað um leiðangra þýsku vísindakonunnar Emmy Mercedes Todtmann til Íslands frá því á fjórða áratug 20. aldar og fram á sjöunda áratuginn. Emmy, sem var jarðfræðingur að mennt,
kom ótal sinnum hingað til lands í þeim tilgangi að rannsaka skriðjökla norðan og sunnan Vatnajökuls, nánar tiltekið hop þeirra eða framskrið og áhrif þess á vatnafar og landmótun. Niðurstöður sínar nýtti hún til samanburðar í rannsóknum sínum á ísaldarlandslagi í heimalandi sínu. Emmy vakti allnokkra athygli hér á landi enda þótti fréttnæmt að kona dveldi ein síns liðs eða við annan mann við rannsóknir lengst uppi á öræfum inn við jökla. Ekki einasta var það fátítt heldur hafði það ekki gerst á Íslandi á þeim tíma sem Emmy ruddi þá braut fyrst kvenna. Hún lauk doktorsprófi í jarðfræði á þriðja áratug 20. aldar og helgaði líf sitt fræðigrein sinni, kona ein í karlaheimi. Saga hennar er athyglisverð í því ljósi enda lagði hún stund á jöklarannsóknir sínar þegar óalgengt var að konur hösluðu sér völl í heimi vísindanna, svo veik var staða kvenna á þeim vettvangi lengi fram eftir 20. öld. En Emmy fór ekki troðnar slóðir, hvorki ef miðað er við hefðbundin kynjahlutverk né í rannsóknaleiðöngrum sínum í torfarinni íslenskri náttúru. Rannsóknir hennar og nafn eru þáttur í sögu fyrstu vísindalegu jöklarannsókna hér á landi.

 

Hólmfríður Garðarsdóttir: Eftirlendur, arðrán og umhverfi: Stigveldi baráttunnar gegn loftslagsbreytingum í Rómönsku-Ameríku

Umræða um umhverfismál hefur til þessa ekki farið sérlega hátt í fjölmiðlum landa Rómönsku-Ameríku. Að brauðfæða þá sem þar búa er mest áberandi baráttumál vinstrimanna en leitin að leiðum til að auka arð af nýtingu náttúruauðlinda hjá hægrimönnum. Málsvarar móður jarðar eða Pachamama, sem eru einna helst baráttusamtök frumbyggja og kvennahreyfingar ýmiss konar, auk fræðimanna, eiga lítt upp á pallborðið í opinberri umræðu. Í greininni er sjónum beint að þeim áskorunum sem álfan öll og Brasilía sérstaklega stendur frammi fyrir um þessar mundir. Spurt er á hverju steytir, hvert umfangið er, hvaða skilning íbúar álfunnar leggja í hugtök eins og loftslagsbreytingar, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd, og hvaða áhrif áframhaldandi arðrán hefur á aðstæður ólíkra þjóðfélagshópa. Hverju ræður að hugmyndir um iðnaðaruppbyggingu sem karllæga og umhyggju fyrir framtíð dýra og manna sem kvenlæga eru enn ríkjandi? Nýlendusaga álfunnar, réttindabarátta frumbyggja og ásælni auðkýfinga og alþjóðafyrirtækja koma þar meðal annars við sögu.

 

Soffía Auður Birgisdóttir: Ef ég kynni að gala galdur: Dimmumót Steinunnar Sigurðardóttur sem heimsslitakvæði

Í greininni er fjallað um Dimmumót eftir Steinunni Sigurðardóttur sem kom út árið 2019. Ljóðabókin er greind í ljósi vistfemínískra áherslna og hugað sérstaklega að tengslum verksins við Völuspá og hugmyndir norrænnar goðafræði um völvuna sem kann að gala galdur. Einnig er rýnt í helstu andstæður í myndmáli verksins, sem annars vegar tengjast ljósi og myrkri, enda vísar bókartitilinn í stefnumót þessa tveggja, en hins vegar eru það andstæðurnar karllegt og kvenlegt; feðraveldið gegn móðurjörðinni. Þá er skoðað hvernig höfundur vinnur með bókmenntagreinarnar tregaljóð og heimsslitakvæði í Dimmumótum, auk þess sem hún fléttar sjálfsævisögulegum þáttum inn í verkið. Undir lokin er spáð lítillega í viðtökur ljóðabókarinnar haustið 2019 og spurt hvor konur megi ekki tjá reiði, jafnvel þótt um framtíð lífs á jörðunni sé að tefla.

 

Angela Rawlings: Að landa: Landviðurkenningar í sýningarstjórnun og í norrænu samhengi

Á síðustu árum hafa landviðurkenningar (e. land acknowledgements) orðið snar þáttur í viðleitni þeirra sem berjast fyrir jafnrétti og leggja rækt við þekkingu og hefðir frumbyggja. Landviðurkenningar eru orðnar að verkfæri sem menningar- og vísindastofnanir nota til að tjá samstöðu með ákveðnum hópum en sneiða um leið hjá inngildingu, andtegundahyggju og þeim vistvænu gildum sem nauðsynleg eru til að takast á við hamfarahlýnun og hnignun líffræðilegs fjölbreytileika. Í þessari grein er farið yfir hvernig landviðurkenningar eru settar fram í listsýningum með hliðsjón af svipuðum yfirlýsingum norrænna og kanadískra samtaka og menningar- og vísindastofnana. Með aðferðafræði listrænna aðgerðatengdra rannsókna, sem hafa á Íslandi einfaldlega verið kallaðar listrannsóknir, er hér fjallað um hvernig höfundur vann sjálfur að landviðurkenningu fyrir fjölþjóðlegt málþing um hlustun á tímum hamfarahlýnunar og hnignunar líffræðilegs fjölbreytileika. Í greininni er því lýst hvernig höfundur nálgaðist það að semja landviðurkenningu sem gæti átt við í fjölþjóðlegu verkefni þar sem raddir frumbyggja og norrænar raddir voru settar í forgrunn. Með því að greina listræna yfirlýsingu í ljósi sambærilegra landviðurkenninga ýmissa lista- og vísindasamtaka, með hliðsjón af víxlhæði mannfólks og þess ekki-mennska, og skilgreiningum á „landi“ í norrænum tungumálum, ætti þessi grein að geta aukið skilning okkar á landviðurkenningum.

 

Sóllilja Bjarnadóttir og Sigrún Ólafsdóttir: Höfum við öll áhyggjur af loftslagsbreytingum? Greining á loftslagsáhyggjum Íslendinga út frá kyni

Loftslagsbreytingar eru eitt helsta vandamál samtímans og hefur fræðafólk rýnt í hvaða þættir vekja áhyggjur af þeim. Rannsóknir hafa sýnt að konur hafi meiri áhyggjur af loftslagsbreytingum en karlar. Í þessari rannsókn var kenningunni um kynjaða félagsmótun beitt og hugmyndir um félagsleg hlutverk notaðar til að svara þremur tengdum rannsóknarspurningum: 1) Er munur á loftslagsáhyggjum eftir kyni hér á landi? 2) Eru tengsl milli mismunandi félagsmótunar kynjanna og loftslagsáhyggja? 3) Hvernig tengist staða á vinnumarkaði loftslagsáhyggjum kynjanna? Notast var við tvíkosta aðhvarfsgreiningu með íslenskum gögnum sem voru hluti af evrópsku félagsvísindakönnuninni (e. European Social Survey) frá árinu 2016. Niðurstöðurnar benda til þess að á Íslandi séu áhyggjur af loftslagsbreytingum miklar hjá báðum kynjum og ekki kom fram kynjamunur, en erlendar rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á slíkan kynjamun. Áhugavert var að sjá að loftslagsáhyggjur voru ekki kynjaðar fyrr en samvirkniáhrif kyns voru skoðuð í tengslum við stöðu einstaklinga á vinnumarkaði. Í ljós kom að kynjamunur tengdur loftslagsáhyggjum var minni hjá þeim sem voru í fullu starfi, samanborið við þau sem voru í hlutastarfi og eru hugsanlegar ástæður þess ræddar í greininni.

 

Margrét Gunnarsdóttir: Biskupsekkjan Margrét og ógnir Skaftárelda: Mannlíf í svartnætti móðuharðinda á árunum 1783–1785

„Eg veit eckert hvad eg skal huxa“, skrifaði Margrét Finnsdóttur, biskupsekkja og sjö barna móðir, í bréfi til bróður síns vorið 1784. Margrét stóð eins aðrir Íslendingar frammi fyrir því að takast á við lífið í miðjum móðuharðindum, sem fylgdu Skaftáreldum sem hófust á hvítasunnudag árið 1783. Þessi grein fjallar um hlutskipti fólks á Íslandi í móðuharðindunum og byggist á persónulegum heimildum, einkum bréfum Margrétar. Hvaða sögu segir persónuleg frásögn sendibréfanna um aðstæður Margrétar og fjölskyldu hennar og viðbrögð við erfiðleikunum sem náttúran skapaði? Hvaða lærdóm má draga af sögu fólks sem upplifði hinar ægilegu náttúruhamfarir? Markmiðið er að bregða upp mynd af nærsamfélaginu og upplifun einstaklinga, aðallega kvenna, á þessum hamfaratímum eins og heimildirnar gefa tilefni til. Í nýjum rannsóknum á sviði umhverfishugvísinda er sjónum beint að samspili manns og náttúru í nærumhverfinu með það fyrir augum að skilja betur hvernig fólk bregst við loftslagsbreytingum. Persónulegar sögulegar heimildir eins og þau sendibréf sem kynnt eru í greininni, bréf sem rituð voru á tímum mikilla en skammvinnra loftslagsbreytinga vegna eldgossins, geta dregið fram ný sjónarhorn í rannsóknum á umhverfis- og loftslagsmálum.

 

Katarina Leppänen: Siðmenning, feðraveldi og rányrkja á náttúrunni: Vistfemínismi í verkum Elinar Wägner

Elin Wägner (1882–1949) var sænskur rithöfundur, blaðakona og femínisti. Í bókinni Väckarklocka (Vekjaraklukka) frá 1941 setti hún fram meitlaða vistfemíníska greiningu á vestrænni siðmenningu þar sem hún rýndi í tengslin á milli undirokunar kvenna annars vegar og rányrkju náttúrunnar og arðránsins sem felst í nýlenduhyggju, stríðsrekstri og kynþáttahyggju hins vegar. Í þessari grein verður rýnt í vistfemíníska kenningu Wägner (þó að í hugtakinu felist vitanlega viss tímaskekkja í þessu samhengi) og kannað hvernig fræðastörf á sviðum sagnfræði, heimspeki, guðfræði, textafræði, fornleifafræði og mannfræði leiddu hana að tilteknum ályktunum um tilkomu feðraveldisins og skaðsemi þess fyrir bæði konur og náttúruna. Saga hugtaksins „vistfemínismi“ sýnir að hugmyndir Wägner eiga sér sterkar rætur í femínískri orðræðu samtíma hennar, sem sést einkum af orðanotkun og röksemdafærslum sem tíðkuðust í þá daga, en í greininni verða enn fremur dregnar upp tengingar á milli birtingarmynda vistfemínisma þá og nú.