Þann 25. mars flutti Auður Styrkársdóttir, stjórnmálafræðingur, fyrirlesturinn „Flestum minnkar frelsi þá fengin er kona.“ John Stuart Mill og kvennabarátta 19. aldar á Íslandi.
John Stuart Mill er sennilega í hópi þekktustu boðbera og kennismiða frjálshyggju 19. aldar. Við hann eru kennd þessi orð: „Frelsið takmarkast eingöngu af því sem skaðar aðra.“ Í fyrirlestrinum var fjallað um félagsvísindamanninn, stjórnmálamanninn og feministann John Stuart Mill. Sá maður myndi heilshugar taka undir hinn gamla íslenska málshátt um þá frelsisskerðingu sem karlmenn verða fyrir við giftingu, en telja hana mjög til bóta. Með riti sínu Kúgun kvenna benti Mill á hve frelsi einstaklingsins nær í raun skammt og hve mannskemmandi er að hafa vald yfir öðrum. John Stuart Mill átti samleið með þeim kvenréttindakonum 19. aldar sem börðust fyrir réttindum konum til handa og hvöttu konur með fordæmi sínu til að taka mál í eigin hendur og skapa nýtt og betra þjóðfélag. Mill á tvímælalaust heima í hópi hinna róttækustu meðal feminista.