Fimmtudaginn 29. mars heldur Eyja Margrét Brynjarsdóttir, nýdoktor við Heimspekistofnun Háskóla Íslands, hádegisfyrirlestur sem ber heitið „Er heimspekin kvenfjandsamleg?” Fyrirlesturinn fer fram í Öskju, stofu 132, kl. 12:00-13:00.
Á undanförnum áratugum hefur konum fjölgað mikið í vísindum og fræðum og sú hugmynd sem var ríkjandi þegar langömmur okkar voru ungar um að konur ættu þar ekki heima hefur verið á hröðu undanhaldi. Á sumum fræðasviðum eru konur jafnvel komnar í meirihluta en meðal hugvísinda sker heimspekin sig úr. Hún er enn karlafag og þá sérstaklega eftir því sem litið er til hærri prófgráða og embætta innan háskólasamfélagsins. Þó að konum hafi eitthvað fjölgað í heimspeki þá hefur fjölgunin verið áberandi hæg. Um 30 íslenskir karlar hafa lokið doktorsnámi í heimspeki en aðeins 6 íslenskar konur og aðeins ein kona gegnir fastri kennslustöðu við námsbraut í heimspeki við Háskóla Íslands. Í þeim löndum sem við berum okkur oftast saman við hefur hlutfall kvenna líka verið lágt, gjarnan rúm 20% í föstum kennslustöðum á háskólastigi og um 30% meðal þeirra sem hafa lokið doktorsprófi í heimspeki á undanförnum árum.
Síðastliðin ár hefur talsverð umræða átt sér stað innan hins alþjóðlega heimspekisamfélags um stöðu kvenna í heimspeki og mögulegar leiðir til úrbóta. Að sama skapi er reynt að rýna í mögulegar skýringar á því að konur sæki síður í heimspeki en margar aðrar greinar, hefji síður heimspekinám, hætti í miðju námi eða hverfi jafnvel úr greininni eftir að námi er lokið. Líklegt má teljast að þarna liggi margir samverkandi orsakaþættir að baki, en heyrst hefur í þessu sambandi að heimspeki sé kvenfjandsamleg. Í erindinu verða hinir mögulegu orsakaþættir skoðaðir en aðaláherslan verður á þá spurningu hvort heimspeki geti talist kvenfjandsamleg. Hvað er átt við með því að heimspeki sé kvenfjandsamleg og í hverju gæti kvenfjandsamleikinn verið fólginn?
Öll velkomin!