Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í nútímasögu Mið-Austurlanda, er fimmti fyrirlesari í fyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum – og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST) á vormisseri 2018. Fyrirlestur hans nefnist: „Hvar liggja mörkin? Egypskar konur og arabíska vorið“ og er fluttur í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, fimmtudaginn 8. mars á milli kl. 12.00 og 13.00.
Í fyrirlestrinum verður rýnt í sögu egypsku kvenréttindahreyfingarinnar, fyrst verður sjónum beint að verkum Huda Shaarawi og endað á margbreytilegum hreyfingum femínista í Egyptalandi í samtímanum. Hvaða aðferðir hafa skilað árangri og hvaða sigrar verið unnir? Hvar hefur helst orðið vart við afturkippi? Fyrir hvaða málefnum hafa egypskar konur helst barist og hversu líklegt er að ástandið muni batna í Egyptalandi eftir arabíska vorið?
Dr. Magnús Þorkell Bernharðsson er prófessor í nútímasögu Mið-Austurlanda við Williams College í Bandaríkjunum. Magnús Þorkell lauk BA prófi í stjórnmálafræði og guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1990, MA prófi í trúarbragðafræði frá guðfræðideild Yale-háskóla árið 1992 og doktorsgráðu í nútímasögu Mið-Austurlanda frá sama skóla árið 1999. Hann hefur kennt mörg námskeið, bæði hér á landi og við háskóla í Bandaríkjunum og hefur gefið út og ritstýrt fjölda bóka, þar á meðal Reclaiming a Plundered Past. Archaeology and Nation Building in Modern Iraq og bók hans Mið-Austurlönd – fortíð, nútíð og framtíð er nýkomin út.
Fyrirlestraröð RIKK og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST) á vormisseri 2018 er tileinkuð Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna en í ár eru 70 ár síðan hún var samþykkt. Mannréttindayfirlýsingin nær yfir grundvallarréttindi sem allir menn – karlar og konur – eiga tilkall til. Markmið fyrirlestraraðarinnar er að fjalla um þá þætti sem viðhalda kynjamismunun og ójafnrétti í ólíkum samfélögum og vekja athygli á gildi mannréttinda sem verkfæris til að takast á við viðvarandi kynjaójöfnuð.
Hádegisfyrirlestraröð RIKK og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á vormisseri 2018 er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.
Fyrirlesturinn er á ensku og er öllum opinn.
Finndu viðburðinn á Facebook!