Þann 3. febrúar heldur Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, menntunarfræðingur, fyrirlesturinn Drengir í skólum: Goðsagnir og veruleiki.
Á undanförnum árum hafa heyrst háværar raddir um stöðu drengja í skólum í þá veru að þeir fari halloka í skóla. Í fyrirlestri sínum mun Ingólfur gefa yfirlit um innlendar og erlendar umræður um stöðu drengja í skólum.Hann sýnir fram á að framfarir í menntun stúlkna og fjölgun kennslukvenna séu jákvæðir þættir í skólastarfinu en heldur því aftur á móti fram að ríkjandi hugmyndir um karlmennsku í samfélaginu hafi skaðleg áhrif á mótun drengja. Ingólfur telur að þessu þurfi að breyta og því ræðir hann leiðir til að stuðla að jafnréttisuppeldi og áhuga drengja á svokölluðum kvennastörfum.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson er sagnfræðingur og kennari frá Háskóla Íslands, lauk kandídatsprófi í sagnfræði frá sama háskóla 1983 og doktorsprófi í menntunarfræðum frá Wisconsinháskóla í Madison 1991. Ingólfur hefur starfað sem kennari við grunn- og framhaldsskóla, námsefnishöfundur fyrir grunnskóla, landvörður í þjóðgörðum og á náttúruverndarsvæði og var deildarstjóri ökunáms hjá Umferðarráði 1992-1995. Þá hefur Ingólfur ritað fjölda blaðagreina. Hann hóf starf við Háskólann á Akureyri 1995 og er nú prófessor og brautarstjóri framhaldsbrautar í kennaradeild. Við HA hefur Ingólfur m.a. kennt námskrárfræði, námskrárgerð, menntastefnufræði og kynjafræði. Í rannsóknum sínum hefur Ingólfur beitt aðferðum Foucaults og Bourdieus við rannsóknir á menntastefnu og menntaumbótum og einnig hefur hann rannsakað sérhæfingu og breytingar í störfum kennara. Nýverið kom út bók hans Karlmennska og jafnréttisuppeldi sem er brautryðjendaverk á sviði kynjafræða og menntunar.
Hér má sjá vefsíðu Ingólfs.