Fimmtudaginn 29. apríl hélt Anna Pála Sverrisdóttir, lögfræðingur frá Háskóla Íslands, fyrirlestur er nefnist „Drekkt af sundlaugarverðinum – kynferðisofbeldi af hálfu friðargæsluliða“.
Í fyrirlestrinum fjallaði Anna Pála um kynferðisofbeldi friðargæsluliða gagnvart konum og börnum sem þeim er ætlað að vernda. Ekki eru mörg ár síðan að slíkt ofbeldi var opinberlega viðurkennt af Sameinuðu þjóðunum en síðan þá hefur verið leitað ýmissa leiða til að taka á því.
Anna Pála bar upp spurninguna hver sé réttur kvenna og barna á friðargæslusvæðum gagnvart kynferðisofbeldi friðargæsluliða. Í því samhengi leitaðist hún við að svara spurningum um hvaða reglur gilda undir slíkum kringumstæðum og hvernig þeim er framfylgt, hvort og þá hvernig menn eru dregnir til ábyrgðar og hvernig rétt arkerfið snýr að þolendum ofbeldisins. Útgangspunkturinn var sá að ef alþjóðasamfélagið tekur að sér að stuðla að friði og öryggi á átakasvæðum, sé lágmark að gera kröfu um að reglur þess – þjóðarétturinn – nái utan um glæpi í tengslum við friðargæsluna.
Fyrirlesturinn byggir á meistaraverkefni Önnu Pálu en leiðbeinandi hennar var Brynhildur G Flóvenz, dósent við lagadeild Háskóla Íslands.