Berglind Rós Magnúsdóttir er þriðji fyrirlesari í hádegisfyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á vormisseri 2025 en röðin er tileinkuð stéttarhugtakinu, stéttaskiptingu og samtvinnun þar sem stétt er lykilbreyta. Erindið ber titilinn: „Birtingarmyndir stéttaskiptingar meðal ungmenna í gegnum námsval til stúdentsprófs: Sjónarhorn nemenda skoðað út frá hugtökum Bourdieu“ og verður haldið fimmtudaginn 27. febrúar á milli kl. 12 og 13 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.
Í erindinu fjallar Berglind um niðurstöður rannsóknar sinnar um náms- og skólaval ungs fólks sem hún hefur unnið að síðan 2017. Markmið rannsóknar er að varpa ljósi á sjálfsmyndarsköpun ungs fólks í gegnum náms- og skólaval og hvernig ákveðin samþjöppun á félags- og menningarlegu auðmagni verður í ákveðnum skólum hefur um árabil mótað stofnanahátt þeirra. Gefin er innsýn í þau félagslegu og tilfinningalegu átök sem framhaldsskólanemendur upplifa þegar þau ganga í menntaskóla sem þau hafa lært að sé bæði merkilegri og fínni en þeir staðir sem þau hafa fram að því alið manninn á. Hluti rannsóknarinnar felur í sér samanburð við finnskt menntakerfi á þeim skólum sem hæst standa í stigveldinu og er unnin í samstarfi við Sonju Kosunen prófessor við Háskólann í Austur-Finnlandi. Fræðileg nálgun er byggð á hugtökum Bourdieu þar sem rýnt er í upplifun nemendanna af ferlinu við að velja og vera valin inn í skólann, hvernig þau hafa upplifað skólavistina og svo hvernig námsvalið, skólareynslan og val á háskólanámi markast af arfbundnu auðmagni og stofnanahætti skólans. Rannsóknin byggir á gögnum frá 10 skólum, tölfræðiupplýsingum og djúpviðtölum við nemendur þeirra. Þegar rannsóknin hófst var alger skortur á rannsóknum á stéttaskiptingu í menntakerfinu og sú trú nokkuð almenn að hér ríkti mikil og góð stéttablöndun.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að náms- og skólaval ungs fólks er markað af misskiptingu auðmagns milli skóla. Það virðist mikið í húfi þegar kemur að framhaldsskólavali, bæði hvað varðar sjálfsmynd einstaklingsins og þá framtíð sem hann telur að bíði sín, þ.e. að vera „týpan“ þar sem „rétt“ tegund af nemendum á heima. Þegar rýnt er í ástæður vals samræmast niðurstöður vel kenningum Bourdieu; „Val eða athafnir eru sjaldnast kaldranalegir útreikningar á mögulegum hagnaði heldur ómeðvituð tengsl milli veruháttar og vettvangs“.
Berglind Rós Magnúsdóttir er prófessor við deild menntunar og margbreytileika á menntavísindasviði Háskóla Íslands, þar sem hún sérhæfir sig í rannsóknum um félagslegt réttlæti í menntakerfum, samanburðarmenntunarfræði og menntastefnufræðum. Berglind lauk doktorsgráðu í uppeldis- og menntunarfræðum frá Cambridge-Háskóla í Bretlandi árið 2014 þar sem hún sérhæfði sig í stéttagreiningum á menntakerfinu út frá breskri nálgun (leiðb. Diane Reay) á kenningar Bourdieu.