Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor, er sjötti fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á haustmisseri 2019 og nefnist fyrirlestur hennar „„berrössuð stelpa“ eða „síðbrjósta kellíng“: Um elli og öldrun og afstöðu skáldmæltra kvenna til slíkra efna“. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 14. nóvember, kl. 12:00-13:00, í fyrirlestrasal
Þjóðminjasafns Íslands.
Í fyrirlestrinum verður fyrst drepið á hvernig talað hefur verið um öldrun og elli fyrr og nú; vikið að lífseigum hugmyndum sem hafa verið uppi um ellina – og öldrun kvenna sérstaklega; minnst á hvenær rannsóknir á konum og elli hófust og hvernig þær hafa breytt sýn okkar á efnið en þá verður meðal annars vitnað í Simone de Beauvoir. Að auki verður sótt til nokkurra femínista á þessari öld til að varpa ljósi á stöðu mála nú. Í framhaldinu verða tekin dæmi úr ritum ýmissa íslenskra skáldkvenna sem gefa
innsýn í hvernig ellin markar reynslu þeirra og kenndir – á ólíkum tímum og við ólíkar aðstæður.
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir er prófessor í íslenskum bókmenntum eftir 1700. Hún hefur fengist við kennslu á ýmsum skólastigum, síðustu þrjátíu ár á háskólastigi, bæði hérlendis og í Kaupmannahöfn. Rannsóknir hennar eru á sviði miðaldabókmennta og seinni alda bókmennta en síðustu fimmtán ár hefur hún einkum nýtt hugræna bókmenntafræði á fornan og nýjan skáldskap.
Fyrirlesturinn er fluttur á íslensku og er öllum opinn og aðgangur ókeypis.
Viðburðurinn á Facebook!
Hádegisfyrirlestraröð RIKK á haustmisseri 2019 er tileinkuð öldrun. Í fyrirlestraröðinni munu fyrirlesarar úr mismunandi greinum fjalla um viðfangsefnið út frá ólíkum sjónarhornum.
Fyrirlestraröðin er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.