Í tilefni af 150 ára afmæli Bríetar Bjarnhéðinsdóttur buðu Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum, Kvennasögusafn Íslands og Kvenréttindafélag Íslands til málþings um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og arf hennar. Málþingið var haldið í hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 29. sept. 2006. Ávörp fluttu Kristín Ingólfsdóttir rektor og Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra. Erindi fluttu Sigríður Th. Erlendsdóttir sagnfræðingur, Þorbjörg Inga Jónsdóttir lögfærðingur og form. KRFÍ, Þorgerður Einarsdóttir dósent í kynjafræði, Auður Styrkársdóttir stjórnmálafræðingur og Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur. Lesið var úr skrifum Bríetar og lög sungin frá tímum kvenréttindabaráttunnar.
Dagskrá
Málþingið hófst kl. 13.30 með ávarpi Kristínar Ingólfsdóttur, rektors Háskóla Íslands, og ávarpi Magnúsar Stefánssonar félagsmálaráðherra þar á eftir. Því næst flutti Sigríður Th. Erlendsdóttir sagnfræðingur erindi um Bríeti, og að því loknu var upplestur úr Kvennablaðinu.
Kl. 14.20 flutti Þorbjörg Inga Jónsdóttir, formaður KRFÍ, erindið „Bríet og kvennabaráttan. Kvenréttindafélag Íslands í 99 ár“ en á eftir henni flutti Þorgerður Einarsdóttir dósent erindið „“Þær heimtuðu hærra kaup…“ – Lærum af Bríeti.“
Söngatriði var kl. 14.50 og flutti Auður Styrkársdóttir strax á eftir erindið „“Minn glaðasti ævitími“ – Bríet og alþjóðabaráttan fyrir kosningarétti kvenna.“
Lesið var úr bréfum Bríetar áður en Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur flutti erindið „“Með hreinni hvatir og sterkari siðgæðistilfinningu“ – Velferð og femínismi innan íslenskrar kvennahreyfingar.“
Loks var söngatriði áður en málþingi var slitið kl. 16.