Hafdís Erla Hafsteinsdóttir er fyrsti fyrirlesari fyrirlestraraðarinnar Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi sem er haldin í samstarfi RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands og Jafnréttisskólans (GRÓ-GEST) á vormisseri 2022. Fyrirlestur Hafdísar nefnist „Allir geta fengið það en sumir meira en aðrir. Alnæmisfaraldurinn á Íslandi í sögulegu ljósi“ og verður haldinn kl. 12.00 þann 3. febrúar í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og sýndur í beinu streymi.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um alnæmisfaraldurinn á Íslandi í víðu sögulegu samhengi. Kynsjúkdómar, líkt og alnæmi, standa á skurðpunkti ólíkra hugmynda um heilbrigði, samfélagsleg gildi, hlutverk ríkisvaldsins, valdheimildir til refsinga og einkalífs borgara svo fátt eitt sé nefnt. Þeir draga einnig fram mismunandi hugmyndir um velsæmi, kynhlutverk og umburðarlyndi samfélagsins gagnvart minnihlutahópum, viðhorf til rómantíkur og kynlífs og fleira. Enn fremur liggur í eðli smitsjúkdóma að varpa ljósi á hugmyndir um „okkur“ og „hina“ þar sem löng hefð er fyrir því að smitsjúkdómar séu kenndir við óværu sem berst utan frá inn í heilbrigð samfélög. Því verður dregin upp mynd af alnæmisfaraldrinum sem einskorðar sig ekki við níunda og tíunda áratuginn heldur fjallað um faraldurinn sem menningarsögulegt fyrirbæri sem teygir anga sína víða. Til dæmis má rekja hluta af orðræðunni um alnæmi á Íslandi til hernámsáranna og ástandsumræðunnar og til hugmynda um þéttbýlið sem hættulegt smitsvæði milli útlanda og Íslands. Í fyrirlestrinum verða færð rök fyrir því að hin almenna söguskoðun hvað varðar réttindabaráttu hinsegin fólks sem var ríkjandi frá aldamótum, sem oftast kýs annað hvort að líta á alnæmi sem afmarkaðan atburð eða lítur fram hjá því, sé takmarkandi. Enn fremur verður fjallað um alnæmi sem mikilvægt hreyfiafl hugmynda um jafnrétti á Íslandi.
Hafdís er doktorsnemi í sagnfræði og stundakennari við Háskóla Íslands og hefur um árabil stundað rannsóknir á sviði hinsegin sögu. Fyrirlesturinn er unninn úr doktorsritgerð hennar sem fjallar um orðræður um alnæmi á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á hvernig ímyndir um kynsjúkdóma hafa myndast og mótast í samhengi við hugmyndir um (ó)æskilega kynhegðun og skoða hvaða hlutverki orðræður um sjúkdóma á borð við AIDS þjónuðu innan hugmynda um þjóðríkið, sjálfsmyndir og borgaraleg réttindi á Íslandi á lýðveldistímanum.
Fundarstjóri er Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.
Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér.