Edda Björk Þórðardóttir er fyrsti fyrirlesari fyrirlestraraðar RIKK á vormisseri 2019 og nefnist fyrirlestur hennar „Áföll og heilsufarslegar afleiðingar þeirra.“ Fyrirlesturinn er fluttur á íslensku fimmtudaginn 10. janúar, kl. 12:00-13:00 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
Í erindi sínu mun Edda Björk fjalla um áhrif áfalla á heilsufar, sér í lagi tengsl þungbærrar lífsreynslu í æsku og heilsufars á fullorðinsárum. Þá verður sérstaklega rætt um áfallastreitu og kenningar um kynjamun í birtingarmynd einkenna hennar. Edda mun greina frá rannsóknum sínum og kollega um afleiðingar áfalla á heilsu barna og fullorðina í íslenskum og erlendum þýðum. Fjallað verður um algengi ofbeldis og þjónustunýtingu í kjölfar þess á Íslandi og kynjamunur ræddur. Að lokum mun Edda Björk segja frá Áfallasögu kvenna, víðamiklu rannsóknarverkefni á vegum læknadeildar Háskóla Íslands.
Edda Björk er með BS gráðu í sálfræði og doktorsgráðu í lýðheilsuvísindum frá Háskóla Íslands. Helstu rannsóknir hennar snúa að áhrifum áfalla á heilsufar. Hún starfar sem nýdoktor við læknadeild Háskóla Íslands.
Finndu viðburðinn á Facebook!
Fyrirlesturinn er fluttur á íslensku og er öllum opinn og aðgangur ókeypis.
***
Hádegisfyrirlestraröð RIKK og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á vormisseri 2019 er tileinkuð sambandi kyns, áfalla og heilsufars. Rannsóknir á áhrifum skaðlegrar reynslu á bernskuárum hefur á undanförnum árum veitt hugmyndum um áhrif uppvaxtarskilyrða á heilsufar og velferð á fullorðinsárum nýtt líf. Fyrirlesarar úr mismunandi greinum munu í fyrirlestraröðinni fjalla um viðfangsefnið út frá ólíkum sjónarhornum.
Fyrirlestraröðin er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.