Bryndís B. Ásgeirsdóttir, dósent, og Rannveig S. Sigurvinsdóttir, lektor

Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, dósent, og Rannveig Sigurvinsdóttir, lektor, flytja sjöunda fyrirlesturinn í fyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum – og UNU-GEST – Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna – á vormisseri 2019. Fyrirlestur þeirra nefnist: „Áföll, geðheilsa og félagslegt samhengi“ og er fyrirlesturinn fluttur í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, fimmtudaginn 4. apríl kl. 12:00-13:00.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um tengsl áfalla við geðheilsu og líðan, auk kynjamunar í þessu samhengi. Þá verður sérstaklega rætt um áhrif ýmissa þátta í nærumhverfi og samfélaginu á einstaklinginn og hvernig þeir tengjast aukinni hættu á áföllum og tengslum þeirra við geðheilsu. Að lokum verður rannsóknin Geðheilsa karla og kvenna á Íslandi kynnt en hún er stórt rannsóknarverkefni við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík.

https://youtu.be/AwJgStGsA74

Hér má nálgast glærur fyrirlestrarins.

Dr. Rannveig S. Sigurvinsdóttir er lektor við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík. Rannsóknir hennar fjalla um áföll og ofbeldi, s.s. áhrif kynferðis- og heimilisofbeldis á geðheilsu þolenda. Hún hefur birt rannsóknir í erlendum fræðiritum um áhrif viðbragða annarra við frásögnum af kynferðisofbeldi, geðheilsu hinsegin þolenda ofbeldis og samfélagsleg inngrip gegn heimilisofbeldi.

Dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir er dósent og deildarforseti sálfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Rannsóknir hennar hafa beinst að áhrifum kynferðislegs ofbeldis og heimilisofbeldis á líðan og hegðun unglinga á Íslandi. Hún hefur birt fjölda greina í erlendum fræðiritum um fjölþættar afleiðingar ofbeldis, verndandi þætti í lífi ungs fólks sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi og um kynjamun í samspili ofbeldis og tilfinninga- og hegðunarvandamála.

Fyrirlesturinn er á íslensku og er öllum opinn.

Finndu viðburðinn á Facebook!

Hér er hægt að horfa á fyrirlesturinn:

Hádegisfyrirlestraröð RIKK og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á vormisseri 2019 er tileinkuð sambandi kyns, áfalla og heilsufars. Rannsóknir á áhrifum skaðlegrar reynslu á bernskuárum hefur á undanförnum árum veitt hugmyndum um áhrif uppvaxtarskilyrða á heilsufar og velferð á fullorðinsárum nýtt líf. Fyrirlesarar úr mismunandi greinum munu í fyrirlestraröðinni fjalla um viðfangsefnið út frá ólíkum sjónarhornum. Fyrirlestraröðin er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.