Afnýlenduvæðing er yfirskrift hádegisfyrirlestraraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á vormisseri 2023. Áhersla er lögð á fjölbreyttar og þverfaglegar rannsóknir á afnýlenduvæðingu, sérstaklega þar sem leitast er við að skoða undirliggjandi hugmyndafræði nýlendu- og heimsvaldastefnu í gagnrýnu ljósi kvenna- og kynjafræða, femínisma og jafnréttisfræða í víðum skilningi.
Sólveig Ásta Sigurðardóttir sem hleypir fyrirlestraröðinni af stokkunum fimmtudaginn 2. febrúar með erindi um norræna nýlendustefnu og hvítt sakleysi í verkum Nellu Larsen. Miðvikudaginn 8. febrúar fjallar Æsa Sigurjónsdóttir um hvítleika í íslenskri samtímalist þar sem hún mun greina tákn hvítleikans í listum og sjónmenningu í ljósi þjóðernishyggju og kynþáttafordóma, fyrirlestur Æsu er einnig á dagskrá Jafnréttisdaga. Eftir fyrirlestra Sólveigar og Æsu taka við sex erindi sem flutt eru á ensku. Fimmtudaginn 23. febrúar beinir Marsha Henry sjónum sínum að friðargæslu út frá kynjuðum, kynþáttamiðuðum og hernaðarlegum þáttum sem henni fylgja. Marai Larasi tekur ímyndunaraflið út frá svörtum femínísma til umræðu í ljósi afnýlenduvæðingar og minni þann 15. mars í erindi sem hún nefnir „„Time Travel“ as Liberation Strategy“. Fyrirlestur Mukul Mangalik þann 30. mars nefnist „Letting The Light In. Un-Gendering Histories of Anti-Colonial Struggles for Liberation“ og þar tekur hann dæmi frá Rómönsku Ameríku, Afríku, og Suður- og Suðaustur-Asíu. Benjamin D. Hennig nálgast afnýlenduvæðinguna út frá kortagerð, í erindi sem hann nefnir „Reclaiming the Map. Power and Politics of Colonial Cartography“, þann 13. apríl. Sue E. Gollifer leiðir svo áhorfendur í gegnum reynslu og sjónarhorn háskólanemenda af því að mæta og rísa gegn áhrifum nýlendustefnu, kynþáttafordóma og kynjamismununar þann 27. apríl. Lokafyrirlestur raðarinnar þann 4. maí er svo í höndum Ann-Sofie N. Gremaud sem mun fjalla um aldarafmæli fullveldis Íslands 2018 og orðræður nýlenduvæðingar og afnýlenduvæðingar í samskiptum fulltrúa Íslands og Danmerkur við það tilefni auk þess sem hún fjallar um listaverk sem tengjast hátíðinni.
Fyrirlestraröðin fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands í samstarfi við safnið. Frekari upplýsingar um röðina má finna á heimasíðu og Facebook-síðu RIKK auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK til að fá sendar reglulegar upplýsingar um starfsemi stofnunarinnar. Fyrirlestrarnir í röðinni verða ýmist á íslensku eða ensku. Fyrirlestraröð RIKK með sömu yfirskrift tekur svo aftur upp þráðinn á haustmisseri 2023 auk þess sem fyrirhuguð er útgáfa greinarsafns um efnið.