Laugardaginn 18. apríl kl. 14 verður efnt til málþings í tengslum við sýninguna MENN sem nú stendur yfir í Hafnarborg. Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands (RIKK) skipuleggur málþingið en þar koma fræðimenn og samfélagsrýnar saman og ræða efni sýningarinnar frá sjónarhóli karla- og jafnréttisfræða.
Þátttakendur eru allir þekktir fyrir rannsóknir eða skrif um jafnréttismál en það eru þeir Ingólfur V. Gíslason, Jón Ingvar Kjaran og Árni Matthíasson. Haukur Ingvarsson rithöfundur og bókmenntafræðingur stýrir málþinginu en að framsöguerindum loknum taka listamennirnir, sem eiga verk á sýningunni, þátt í pallborðsumræðum.
Sýningin MENN beinir sjónum að stöðu karla við upphaf 21. aldar og þeim breytingum sem orðið hafa á högum þeirra í ljósi breyttrar stöðu kvenna. Á sýningunni eru verk eftir þá Curver Thoroddsen, Finn Arnar Arnarson, Hlyn Hallsson og Kristinn G. Harðarson. Í verkunum takast þeir á við spurningar um stöðu karla innan fjölskyldu, hugmyndir um þátttöku þeirra í heimilislífi, ábyrgð á afkomu og uppeldi barna.
Um þátttakendur málþingsins:
Ingólfur V. Gíslason, lektor við Háskóla Íslands á sviði karlafræði, fæðingarorlofs og jafnréttismála. Ingólfur hefur áratuga reynslu af rannsóknum, kennslu og starfi á sínu sérsviði. Ingólfur nefnir sitt erindi Sjónvarpsmenn frá Suður-Kóreu.
Jón Ingvar Kjaran, lauk doktorsprófi árið 2014 og er aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann hefur unnið við rannsóknir í hinsegin- og kynjafræðum samhliða kennslu við Verzlunarskóla Íslands. Erindi Jóns Ingvars nefnist Bræðralag: vinátta og umhyggja íslenskra karlmanna.
Árni Matthíasson, blaðamaður á Morgunblaðinu og samfélagsrýnir sem ritað hefur pistla um stöðu karla auk þess sem hann hefur skrifað um íslenska tónlist, bókmenntir og tölvur og tækni.
Málþingið hefst með því að Ólöf K. Sigurðardóttir forstöðumaður Hafnarborgar og sýningarstjóri sýningarinnar MENN gerir grein fyrir sýningunni. Að framsögum loknum verða pallborðsumræður með þátttöku framsögumanna og listamannanna sem eiga verk á sýningunni.
Fundarstjóri er Haukur Ingvarsson rithöfundur og bókmenntafræðingur. Málþingið er öllum opið og aðgangur er ókeypis.