Hildur Fjóla Antonsdóttir, doktorsnemi í réttarfélagsfræði við Háskólann í Lundi, flytur opinn fyrirlestur sem nefnist „Að skapa réttlætisrými: Upplifun þolenda kynferðisofbeldis af réttlæti utan réttarkerfisins“, föstudaginn 5. janúar, kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
Ljóst er að fá kynferðisbrotamál eru tilkynnt til lögreglu, afar litlum hluta þeirra lýkur með sakfellingu og margir brotaþolar upplifa sig jaðarsetta í refsiréttarferlinu. Femínískir fræðimenn skoða í auknum mæli hvernig fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi skilur hugtakið „réttlæti“ og hvort til séu aðrar leiðir til að koma til móts við hagsmuni þeirra og þörf fyrir réttlæti. Í rannsókn Hildar Fjólu voru tekin viðtöl við 35 manneskjur sem hafa verið beittar kynferðisofbeldi um skilning þeirra og reynslu af „réttlæti“. Á grundvelli þemagreiningar á viðtölunum mátti greina þemað „rými“.
Í fyrirlestrinum verður sérstaklega rýnt í viðtöl við fjóra kvenkyns þátttakendendur sem notuðu ólíkar leiðir í baráttu sinni fyrir rými innan fjölskyldunnar, í vina- og kunningjahópnum, á vettvangi fræðslu og menntunar, á vinnustaðnum og í samfélaginu almennt. Fjallað verður um upplifun þeirra innan greiningarramma Fionu Veru-Gray sem byggir á hugtaki Liz Kelly um „samfellu kynferðisofbeldis“ (e. continuum of sexual violence) og tilvistar-fyrirbærafræði Simone de Beauvoir. Einnig verður stuðst við hugtakið „kaleidoskópískt réttlæti“ (e. kaleidoscopic justice) sem hefur verið þróað af Clare McGlynn o.fl.
Í stuttu máli má skilja baráttu þessara fjögurra þátttakenda fyrir rými sem baráttu fyrir réttmætri tilvist og sem inngrip inn í þá „samfellu óréttlætis“ sem þær standa frammi fyrir. Sköpun réttlætisrýmis gerir þeim kleift að finna til sín, finna fyrir líkama sínum og upplifa aukið frelsi til að taka sér pláss í heiminum.
Markmið doktorsrannsóknar Hildar Fjólu miðar í fyrsta lagi að því að skilja hvernig fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi lýsir, skynjar og upplifir (ó)réttlæti; og í öðru lagi að kanna hvort, og þá hvernig, sú þekking getur nýst til að þróa leiðir sem geta mætt réttlætisþörfum og –hagsmunum fólks sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi, bæði innan og utan réttarkerfisins.
Erindið er flutt á íslensku og aðgangur er öllum opinn og ókeypis.
Finndu viðburðinn á Facebook!