Þann 25. október hélt Sigfríður Gunnlaugsdóttir, bókmenntafræðingur, erindið Að hafa töglin og hagldirnar: Doris Lessing og feminisminn í fyrirlestrasal Þjóðarbókhlöðu.
Útgáfa The Golden Notebook árið 1962 olli straumhvörfum í höfundarferli Dorisar Lessing. Bókin markar að mörgu leyti skil milli þess hluta höfundarverks hennar sem einkenndist af raunsæishefðinni og þeirra verka hennar þar sem áhrifa Sufisma og sálfræðikenninga R.D. Laing gætir hvað mest. The Golden Notebook var afar vel tekið af feministum sjöunda áratugarins sem fögnuðu bókinni sem tímamótaverki fyrir kvennabaráttuna. Lessing hefur sjálf alfarið neitað því að bókin hafi verið skrifuð með hugmyndir kvennahreyfinganna að leiðarljósi og ítrekað látið í ljós pirring yfir því að bókin hafi verið hertekin af feministum sem hreinlega misskilji hana og rangtúlki. Í þessu samhengi líkt og mörgum öðrum hefur Lessing viljað stýra viðtöku verka sinna og verið alls ófeimin við að hengja við verk sín formála og eftirorð þar sem hún kemur sínum sjónarmiðum um “réttar” túlkanir á framfæri. Viðbrögð feminista sjöunda áratugarins við útgáfu bókarinnar og túlkanir þeirra á henni hafa mjög litað allt viðhorf Lessing til feminisma og kvennahreyfinga. Hún hefur verið ófeimin við að tjá þá skoðun sína að hugmyndaheimur feminista sé byggður á misskilningi – þ.e. að þær skilji ekki að baráttan fyrir réttindum kvenna geti aldrei verið annað en hluti af stærri heild eða baráttunni fyrir almennum mannréttindum öllum til handa.