Dr. Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, sagn- og kynjafræðingur, flytur erindið „Að fá (ekki) kosningarétt – eða missa“, fimmtudaginn 19. október, kl. 12-13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Þorgerður starfar sem sérfræðingur hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og er sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni.
Í fyrirlestrinum verður aðferðum samtvinnunar (ens. intersectionality) beitt til þess að rýna með gagnrýnum hætti í „sigurgöngusöguna“ um kosningarétt íslenskra kvenna, sem fékkst þann 19. júní 1915, og „spyrja öðruvísi spurninga“ um takmarkanir kosningaréttarins og þær hindranir sem konur (og karlar) gátu staðið frammi fyrir eftir að hin borgaralegu réttindi voru formlega í höfn. Í fyrstu var aldurtakmark nýrra kjósenda, þ.e. allra kvenna og vinnumanna, takmarkað við 40 ára aldur og allt til ársins 1934 missti fátækt fólk sem var í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk kosningarétt sinn og kjörgengi. Í upphafi voru kyn, aldur og stétt, því samtvinnaðir þættir sem með afgerandi hætti takmörkuðu lýðræðisréttindi fólks. Að auki voru samfélagsbreytur á borð við hjúskaparstöðu, ómegð, aldur, fötlun og heilsufar samtvinnaðar kyni og stétt og gátu hindrað fólk í að lifa mannsæmandi lífi og vera fullgildir pólitískir þegnar og gerendur í samfélaginu. Kastljósinu verður sérstaklega beint að nokkrum konum sem neyddust til þess að þiggja sveitastyrk vegna langvarandi eða tímabundinna erfiðleika vegna veikinda, makamissis eða barnafjölda. Fyrir vikið ýmist fengu þær ekki kosningarétt – eða fengu hann og misstu, í lengri eða skemmri tíma.
Fyrirlesturinn byggir á grein sem birtist í Sögu LV:1, vorið 2017. Rannsóknin er hluti af rannsóknarverkefninu „Í kjölfar kosningaréttar. Félags- og menningarsöguleg rannsókn á konum sem pólitískum gerendum 1915-2015“, sem styrkt er af Rannís. Að rannsókninni vinna, auk fyrirlesara, sagnfræðingarnir Erla Hulda Halldórsdóttir og Ragnheiður Kristjánsdóttir, auk Hönnu Guðlaugar Guðmundsdóttur doktorsnema í sagnfræði. Verkefnið hefur einnig hlotið styrk frá EDDU öndvegissetri við Háskóla Íslands.
Erindið sem er hluti af Jafnréttisdögum er flutt á íslensku og aðgangur er öllum opinn og ókeypis.
Finndu viðburðinn á Facebook!