Föstudaginn 17. apríl flytur Ingibjörg Sigurðardóttir, bókmenntafræðingur og aðjúnkt við Hug- og félagsvísindasvið HA, fyrirlesturinn „Á eigin vegum. Um sjálfsmyndasköpun Ingibjargar Steinsdóttur leikkonu (1903-1965)“ í stofu 102 á Háskólatorgi kl. 12-13.
Í fyrirlestrinum fjallar Ingibjörg um ömmu sína Ingibjörgu Steinsdóttur leikkonu og leikstjóra (1903-1965) og framhaldslíf hennar í sögum fjölskyldunnar. Fyrir utan leiklistina sinnti Ingibjörg margvíslegum störfum, t.d. á sviði búrekstrar, kennslu, þjónustu og verslunar, auk þess að taka virkan þátt í stjórnmálum, fást við skáldskap og gerð dagskrárefnis fyrir útvarp. Það sem einkennir feril Ingibjargar eru tilraunir hennar og frumkvæði til að snúast gegn ríkjandi gildum samfélagsins, þar á meðal viðhorfum til kvenna.
Ingibjörg þótti sérstakur persónuleiki sem lét stundum stjórnast af tilfinningum fremur en rökhyggju. Hún hafði dálæti á skáldskap og var gædd ríkri frásagnargáfu. Í uppeldi barna sinna lagði Ingibjörg ríka áherslu á þessa þætti sem aftur hefur skilað sér til næstu kynslóðar í sagnaarfi fjölskyldunnar um Ingibjörgu sjálfa. Viðfangsefni erindisins verður öðrum þræði að ígrunda hvers vegna þessi arfur hefur náð að lifa með fjölskyldunni í hálfa öld.
Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni „Margar myndir ömmu“ sem RIKK heldur í samstarfi við Þjóðminjasafnið og styrkt er af framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.
Viðburðurinn er öllum opinn og er á Facebook.