Þann 27. janúar kl. 15:00 heldur Sigríður Matthíasdóttir sagnfræðingur fyrirlesturinn Um einstaklingseðli kvenna. Karlar og viðhorf til kvenréttinda á Íslandi í kringum aldamótin 1900 í stofu 132 í Öskju.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um viðhorf íslenskra karlmanna til kvenréttinda og kvenleika á árunum í kringum aldamótin 1900. Sérstaklega verða skoðaðar hugmyndir þeirra um konur sem pólitíska einstaklinga og möguleika kvenna til að taka þátt í stjórnmálum og opinberu lífi. Lagðar verða til grundvallar ýmsar niðurstöður í kvenna- og kynjasögu undanfarinna ára, þ.á.m. kenning um tengsl hins pólitíska einstaklings og hins kvenlega sem bandaríski sagnfræðingurinn Joan Scott hefur sett fram. Enn fremur verður tekið mið af rannsóknum sænskra sagnfræðinga sem hafa verið framarlega í kynjasögu og rannsóknum á viðhorfum karla til kvenréttinda. Í fyrirlestrinum verður körlum og viðhorfum þeirra til kvenréttinda skipt í þrjá hópa og verða þeir skoðaðir út frá hugmyndum þeirra um ofangreinda þætti. Í fyrsta lagi verður fjallað um baráttumenn fyrir kvenréttindum í lok 19. aldar, menn á borð við Skúla Thoroddsen o.fl. Í öðru lagi verður tekin til athugunar sá hópur valdamanna sem greiddu götu kvenréttindamálsins í byrjun 20. aldar án þess að geta talist hreinir baráttumenn. Í þriðja lagi verður fjallað um andstöðu karla gegn kvenréttindum sem tók að birtast í auknum mæli um það leyti sem stjórnarskrárbreyting um kosningarétt og kjörgengi og rétturinn til menntunar og embætta var samþykktur á Alþingi árið 1911.
Um Sigríði Matthíasdóttur
Sigríður Matthíasdóttir lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands á síðastliðnu ári og bar doktorsritgerð hennar heitið Hinn sanni Íslendingur. Þjóðerni, kyngervi og vald á Íslandi 1900-1930. Hún hlaut nýlega rannsóknastöðustyrk frá Rannsóknaráði Íslands. Fyrirlesturinn sem hér verður fluttur er byggður á doktorsritgerð hennar og er um leið hluti af rannsókn sem gerð var innan ramma rannsóknarverkefnisins „Menn og modernitet. Den nordiske mannen. 1790-1940: Variasjoner og endringer“. Þar er um að ræða samstarfsverkefni með sagnfræðingum frá Noregi, Svíþjóð og Finnlandi sem styrkt er af NOS-H árin 2003-2005 og er áætlað að endi með útkomu bókar nú á þessu ári.