Sif Einarsdóttir sálfræðingur og Jóhanna Einarsdóttir menntunarfræðingur flytja fyrirlesturinn „Ég var fyrirmyndar mamma.“ Reynsla eldri kvenna í háskólanámi í stofu 101 í Lögbergi fimmtudaginn 29. janúar kl. 12:00-13:00.
Greint verður frá rannsókn á reynslu og viðhorfi eldri kvenna í háskólanámi. Tekin voru viðtöl við leikskólakennaranema við Kennaraháskóla Íslands. Rætt var við nemendur á lokaári í staðnámi og fjarnámi í rýnihópum. Skoðað var hvers vegna þeir fóru í háskólanám og viðbrögð nánasta umhverfis við þeirri ákvörðun. Sýn þeirra á eigin getu og líðan gagnvart náminu var borin saman við viðhorf og líðan yngri nemenda. Einnig var kannaður sá stuðningur sem þær fengu frá fjölskyldu, námsráðgjöfum, kennurum og samnemendum. Niðurstöður verða kynntar og ræddar í ljósi umræðu um stöðu eldri kvenna í háskólasamfélaginu og fjölbreytileika nemenda í háskólanámi.
Sif Einarsdóttir sálfræðingur starfar sem dósent við KHÍ og stundar einkum rannsóknir á sviði námsráðgjafar.
Jóhanna Einarsdóttir menntunarfræðingur starfar sem dósent við KHÍ og stundar einkum rannsóknir á kennararstarfinu og menntun yngri barna.