Að hugsa sitt. Starfshugsun og kynferði

Fimmtudaginn 1. apríl kl. 15-16:30 flytur dr. Guðbjörg Vilhjálmsdóttir náms- og starfsráðgjafarfræðingur fyrirlesturinn: Að hugsa sitt. Starfshugsun og kynferði. Fyrirlesturinn fer fram í stofu 132 í Öskju.

Innan bæði félagsfræði og sálfræði er litið svo á að allir hugsi nokkurn veginn eins um störf og er það gjarnan sýnt á hugarkortum, þar sem virðing og kyn eru helstu víddirnar. Í fyrirlestrinum eru þessar kenningar gagnrýndar út frá rannsókn sem sýndi fram á félagslegan mun á starfshugsun hjá ungu fólki. Með starfshugun er átt við það hvernig fólk skynjar eða leggur mat á tiltekinn fjölda starfa.

Kenning franska félagsfræðingsins Pierre Bourdieu (1930-2002) er notuð til að greina félagslegan mun á hvernig ungt fólk hugsar um störf. Habitus er grundvallar hugtak í kenningu Bourdieu, sem má þýða sem félagslegan veruhátt, formgerð sem hefur félagslegan uppruna og er samofin hugsun okkar og skynjun og liggur til grundvallar mismunandi lífsstíl. Hinn ólíki veruháttur karla og kvenna er grundvallandi í habitushugtakinu og var það því ekki að undra að Bourdieu skrifaði árið 1998 bókina La Domination Masculine um yfirráð karla. Í fyrirlestrinum verður sagt frá því hverjar niðurstöður hans eru í rannsóknum á kynjunum. Eitt af því sem Bourdieu telur vera grundvallaratriði sem skýrir auðsveipni kvenna við yfirráð karla er táknræna ofbeldið, sem er ósýnilegt og óáþreifanlegt en gagnsýrir samskipti, þekkingu og lífsstíl karla og kvenna.

Þátttakendur í rannsókninni voru um 900 unglingar í 10. bekk í 26 grunnskólum víðsvegar af landinu. Til að greina félagslegan habitus eða lífshætti svöruðu nemendur um 90 spurningum um hvað þau gera í frístundum, s.s. hvaða sjónvarpsþætti þau horfa á eða hvernig tónlist þau hluta á. Mæling á starfshugsun er gerð með því að leggja lista af 11 störfum fyrir þátttakendur sem þau meta á 12 tvíhliða kvörðum. Í fyrirlestrinum verður greint frá því hvernig annars vegar kynferðið hefur áhrif á það hvernig þau skynja eða hugsa um störf og hins vegar hvernig félagslegur habitus hefur áhrif á starfshugsun. Að lokum verður því velt upp hvort að þessi félagslegi munur á starfshugsun varpar ljósi á kynjaskiptingu í starfsvali.

Um Guðbjörgu Vilhjálmsdóttur

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir lauk doktorsprófi í náms- og starfsráðgjafarfræðum frá University of Hertfordshire, Englandi í febrúar sl. Doktorsritgerð hennar nefnist: Social group differences in occupational conceptualisations: The relationship to career decision making and the relevance of careers education.

Guðbjörg er lektor í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands og hefur einkum lagt stund á rannsóknir á starfshugmyndum ungs fólks og á árangri fræðslu og ráðgjafar um nám og störf.