Kosningaréttur kvenna í 90 ár

Málþing um kosningarétt kvenna og áhrif hans í 90 ár verður haldið í hátíðasal Háskóla Íslands 20. maí 2005 kl. 13.00 – 16.00. Málstofustjóri er Erla Hulda Halldórsdóttir sagnfræðingur.

Þann 19. júní næstkomandi verða 90 ár liðin frá því að Danakonungur undirritaði lögin sem veittu konum sem orðnar voru 40 ára og eldri rétt til að kjósa og bjóða sig fram til Alþingis. Þar með voru langþráð réttindi í höfn eftir áratuga baráttu íslenskra kvennahreyfinga og stuðningsmanna þeirra. Kosningaréttur kvenna þótti stórtíðindi þótt takmarkaður væri en þess má geta að um leið hlaut einnig stór hópur vinnumanna kosningarétt til Alþingis í fyrsta sinn.

Konur „sem áttu með sig sjálfar“ fengu kosningarétt til sveitastjórna árið 1882 en þær máttu ekki bjóða sig fram fyrr en árið 1902. Árið 1907 fengu giftar konur kjósenda í Reykjavík og Hafnarfirði kosningarétt og kjörgengi til sveitastjórna. Nokkur kvenfélög í Reykjavík brugðust við með því að bjóða fram kvennalista sem vann stórsigur í kosningunum 1908. Árið 1909 náði kosningarétturinn til allra kvenna auk þess sem stór hópur karla bættist þá við hóp kjósenda.

Árið 1916 bauð Bríet Bjarnhéðinsdóttir sig fram fyrir Heimastjórnarmenn er kjósa skyldi sex landskjörna þingmenn í stað hinna konungskjörnu í samræmi við breytta stjórnarskrá. Kosningaþátttaka kvenna var lítil og Bríet var strikuð út þannig að hún náði ekki kjöri. Greinar hennar í Kvennablaðinu frá þessum tíma lýsa vonbrigðum en hún lagði áherslu á að kosningarétturinn væri tæki sem ætti að nota til áhrifa í þágu þess málstaðar sem kvenréttindakonur báru fyrir brjósti. Jafnrétti væri alls ekki komið á.

Eftir að þeim konum sem sátu í bæjarstjórn Reykjavíkur var „sparkað“ í aðdraganda kosninganna 1922 ákvað hluti kvennahreyfingarinnar að bjóða enn á ný fram kvennalista til að koma konu inn á þing. Það tókst og tók Ingibjörg H. Bjarnason sæti á þingi í febrúar 1923. Hún var eina konan á þingi til 1930 en þá tók Guðrún Lárusdóttir við sem sat til 1938. Fram til ársins 1983 sátu aðeins 12 konur á Alþingi og var hlutur þeirra aðeins 5% er kvennalistar litu dagsins ljós á ný. Kosningaþátttaka kvenna fór þó stöðugt vaxandi. Hún hefur lengi verið svipuð þátttöku karla, þar til á síðustu árum að konur eru orðnar fleiri í röðum þeirra sem nýta kosningaréttinn. Konur hafa kosið en hlutur þeirra á þjóðþinginu og í sveitarstjórnum hér á landi hefur verið mjög rýr og mun minni en á hinum Norðurlöndunum.  Hann er nú rúm 30%.

Hver var aðdragandi þess að konur hlutu kosningarétt og hvernig var umræðan í kringum kosningaréttinn? Hvernig þróaðist kosningaþátttaka kvenna og lögðu konur áherslu á önnur mál en karlar? Hvers vegna var boðinn fram kvennalisti árið 1922 og hvaða erindi töldu kvenréttindakonur sig eiga inn á svið stjórnmálanna. Þessum spurningum munu fræðimenn leitast við að svara í þeim erindum sem flutt verða á málþinginu.

Dagskrá:

13.00: Ávarp. Eiríkur Tómasson, forseti lagadeildar Háskóla Íslands.

13.15: Ávarp. Halldór Blöndal forseti Alþingis.

13.30: Tónlist. Sesselja Kristjánsdóttir messósópran og Guðríður Sigurðardóttir píanóleikari.

13.40: Erindi. Guðmundur Hálfdanarson prófessor. Kosningaréttur kvenna og afmörkun borgararéttar – umræður um þátttöku og útilokun í íslenskum stjórnmálum.

14.00: Ljóð. Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona flytur.

14.10: Erindi. Auður Styrkársdóttir stjórnmálafræðingur. Kynlegur munur eða kynlægur?  Um kynjamun í kosningum og stefnumálum.

14.30 HLÉ

14.40: Erindi. Sigríður Matthíasdóttir sagnfræðingur. Uppnám og uppbrot. Kvenfrelsisstefnan á árunum 1907-1911.

15.00: Ljóð. Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona flytur.

15. 10: Erindi. Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur: „Á þessum sviðum sér auga konunnar glöggar en auga karlmannsins“ – Kvennalistinn og landskjörið 1922.

15.30 – 16.00 Umræður. Í lok málþingsins verður boðið upp á léttar veitingar.