Hádegisfyrirlestur fimmtudaginn 11. mars 2004 kl. 12-13 flytur Guðbjörg Linda Rafnsdóttir fyrirlesturinn Kynferði og upplýsingatækni í stofu 101 í Lögbergi.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um tengsl upplýsingatækni og kynferðis í ljósi ólíkra kenningastrauma innan femínismans. Einnig verður greint frá íslenskri rannsókn um upplýsingatækni og persónuvernd og sýnt á hvern hátt upplýsingatæknin viðheldur ríkjandi kynjaskiptingu á vinnumarkaði í stað þess að draga úr henni, eins og margir höfðu spáð fyrir um. Hugtökin tæknileg og félagsleg nauðhyggja verða notuð til að greina þau öfl sem koma í veg fyrir breytingar.
Dr. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir er lektor í félagsfræði við Háskóla Íslands og er starfandi félagsfræðingur á rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins. Auk rannsókna um áhrif upplýsingatækni á störf og stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði hefur Guðbjörg Linda lagt stund á rannsóknir um kynjaskipta verkalýðshreyfingu hér á landi, kynjaskiptan vinnumarkað og samspil vinnuumhverfis og líðanar starfsmanna.