Vanadís, völva, valkyrja

Fimmtudaginn 26. febrúar kl. 12:00-13:00 flutti Valgerður H. Bjarnadóttir, félagsráðgjafi og MA í femínískri trúarheimspeki, fyrirlesturinn Vanadís, völva og valkyrja – fornar birtingarmyndir gyðjunnar, endurspeglaðar úr minni íslenskrar konu í stofu 101 í Lögbergi.

Sögurnar og goðsagnirnar sem við höfum lært að þekkja úr fornritunum eru í raun minningar þeirra sem skráðu þær. Þau voru mótuð af menningu sinni, sem hafði án efa áhrif á það hvað var skráð og hvernig. Sama er að segja um síðari tíma túlkanir. Þeir fræðimenn sem hafa túlkað þessi rit á okkar tímum eru undir áhrifum sinnar menningar og félagslegrar stöðu. Engu að síður gefa þessar sögur og sagnir hugmyndir um rætur okkar og þá menningu sem við erum sprottin úr. Og þær segja fleiri en eina sögu. Hingað til hafa það fyrst og fremst verið kristnir, akademískir karlar sem hafa skráð og túlkað þessi fornu fræði fyrir okkur hin. Á þessu hafa á síðustu áratugum verið örfáar ánægjulegar undantekningar. Helga Kress ruddi brautina hérlendis fyrir okkur konur og hinn akademíski, kristni, stríðsglaði karlaheimur varð æfur, hræddur. Heimsmynd þeirra var ógnað.

Svipuð áhrif hafði hin litháenska Marija Gimbutas á karlveldi fornleifafræðinnar, þegar hún birti sínar rannsóknarniðurstöður, um kvenlæga menningu í Gömlu Evrópu og upphaf og áhrif karlveldis í okkar heimshluta. Hún kynnir okkur forna menningu þar sem Gyðjan situr í miðju hringrásar lífsins, þar sem jafnvægi ríkir milli konu, karls og náttúru og þar sem stríð er óþekkt. Þessi fagra heimsmynd hrynur með innrás indóevrópskra þjóðflokka úr norðaustri. Þeirra menning var mjög karllæg, híerarkísk og goð þeirra voru á himnum. Fágaðar listir og ritúöl sem tengdust frjósemi og hringrás lífsins, viku fyrir stríði, ofbeldi og ógnum. Konur viku fyrir körlum. Á tímabilinu 5300 f.kr. hefst þessi innrás, leitar til suðurs og vesturs og hefur náð til norðvesturhluta Evrópu á þriðju öld f.kr. Marija Gimbutas leggur hins vegar ríka áherslu á að menningin sem fyrir var lifði að nokkru leyti af í bland við þá nýju. Ýmsar goðsagnir og aðrar menningarleyfar endurspegla þessa gömlu þræði. Íslenskar goðsagnir og saga eru þar engin undantekning, með lýsingum á átökum og síðar samruna milli Vana, Jötna og Ása.

Um Valgerði H. Bjarnadóttur

Í MA námi sínu á sviði femínískrar trúarheimspeki eða menningarfræði lagði Valgerður H. Bjarnadóttir áherslu á að leita að þráðum úr Vanamenningunni í fornbókmenntum okkar, með speglun frá minningum um Gyðjuna í Gömlu Evrópu. MA ritgerð hennar, The Saga of Vanadís, Völva and Valkyrja – Images of the Divine from the Memory of an Islandic Woman, fjallar um leitina að þessum þráðum sem hafa lifað og lifa enn í íslenskri menningu. Í erindinu mun Valgerður gera grein fyrir þessari leit, því sem hún fann og er enn að finna, og hugsanlega þýðingu þess fyrir aukið jafnvægi kynjanna í nútímasamfélagi.

Valgerður lauk félagsráðgjafanámi frá Sosialhögskolen Bærum í Noregi 1980. 1996 lauk hún BA í Integral Studies frá California Institute of Integral Studies í San Francisco og 2001 MA í femínískri trúarheimspeki frá sama skóla. Hún hefur um áratuga skeið starfað að málefnum kvenna og jafnrétti kynjanna á ýmsum vettvangi. Valgerður hefur verið virk í kvennahreyfingunni og stjórnmálum, og hefur tvívegis setið í bæjarstjórn Akureyrar, fyrst fyrir Kvennaframboðið og nú fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð.