UNIFEM á Íslandi og Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands boðuðu til ráðstefnu 21. október í hátíðasal Háskóla Íslands í tilefni af því að í haust eru liðin 10 ár frá kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking. Þar var samþykkt framkvæmdaáætlun í málefnum kvenna – Pekingáætlunin – sem nær yfir tólf málaflokka, allt frá fátækt kvenna og stöðu þeirra á átakasvæðum til menntunar, heilsu og aukinna valda.

Árið 2000 var haldið sérstakt aukaallsherjarþing í New York til að mæla hvernig gengið hefði og um mánaðarmótin febrúar/mars á þessu ári var haldinn sérstakur fundur kvennanefndar SÞ til að kanna hver staðan er nú í málefnum kvenna á heimsvísu. Þar er skemmst frá að segja að miðað hefur áfram í sumum málum en í öðrum hefur verið um afturför að ræða. Í stórri skýrslu frjálsra félagasamtaka sem kynnt var í byrjun árs 2005 kemur fram að aukin hervæðing, alþjóðavæðing, nýkapítalismi og bókstafstrú eigi hvað stærstan hlut í versnandi stöðu kvenna víða um heim og er fullyrt að ekki hafi verið staðið við Pekingáætlunina í veigamiklum atriðum.

Á ráðstefnunni fluttu þekktar erlendar fræðikonur og baráttukonur erindi. Þar er fyrst að nefna prófessor Anne Phillips frá London School of Economics, sem hefur einkum rannsakað og skrifað um lýðræðishallann. Osnat Lubrani er svæðisstjóri UNIFEM í Austur-Evrópu, með aðsetur í Bratislava, Rosa Logar er frá samtökunum Women Against Violence Europe (WAVE) and Domestic Abuse Intervention Centre í Austurríki, Flora Macula kemur frá UNIFEM í Kosovo og Mieke Verloo er prófessor við Háskólann í Nijmegen í Hollandi og ráðgjafi framkvæmdarstjórnar ESB og Evrópuráðsins um stefnumótun jafnréttismála. Meðal fyrirlesara frá Íslandi voru Rachel Lorna Johnstone lektor við Háskólann á Akureyri, Lilja Mósesdóttir prófessor við Viðskiptaháskólann á Bifröst, Guðrún Jónsdóttir hjá Stígamótum og Jónína Einarsdóttir lektor við Háskóla Íslands.

Að loknum opnunarfyrirlestrum voru pallborðsumræður með þátttöku fyrirlesara og þeirra Sólveigar Pétursdóttur forseta Alþingis, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur formanns Samfylkingarinnar, Þorgerðar Einarsdóttur dósents í kynjafræðum og Kristínar Ástgeirsdóttur sagnfræðings. Umræðunum stýrði Sigríður Lillý Baldursdóttir vísindasagnfræðingur sem flutti ræðu Íslands og var varaformaður íslensku sendinefndarinnar í Peking.

Eftir hádegi var unnið í þremur málstofum sem fjölluðu um: Konur og ofbeldi, lýðræði og opinbera stefnumótun í jafnréttismálum og efnahagsleg og félagsleg réttindi kvenna.

Icelandair, utanríkisráðuneytið, dómsmálaráðuneytið og bandaríska sendiráðið studdu ráðstefnuna.