Ferðamál, ímyndasköpun og kynjuð orðræða

Þann 30. ágúst kl. 16:15 hélt Annette Pritchard, ferðamálafræðingur, fyrirlesturinn Ferðamál, ímyndasköpun og kynjuð orðræða í stofu 101 í Odda á vegum RIKK og ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Dr. Pritchard var einnig aðalfyrirlesari á heimsfundi menningarmálaráðherra úr röðum kvenna sem haldinn var í Reykjavík 29. og 30. ágúst á vegum Heimsráðs kvenleiðtoga (Council of Women World Leaders).

Dr. Pritchard er forstöðumaður Welsh Centre for Tourism Research við háskólann í Cardiff og gestaprófessor við New Zealand Tourism Research Institute. Hún er stjórnarmaður í Executive Committee of the Association for Tourism in Higher Education á Bretlandi og í ritstjórn tímaritsins Journal of Tourism and Cultural Change and Leisure Studies, ásamt því að vera reglulega með innlegg um ferðamál í útvarpi og sjónvarpi BBC. Dr. Pritchard kom einnig á fót samstarfsneti kynjafræðinga í ferðamálafræðum og er í forsvari fyrir First International Conference on Critical Tourism Studies sem haldin var í Dubrovnik í Króatíu, í júlí 2005. Hún hefur bakgrunn úr félagsvísindum, fjölmiðlafræði og félagsfræði ásamt alþjóðastjórnmálafræði. Eftir hana liggja um 100 bækur og greinar í alþjóðlegum tímaritum um ímyndir, markaðssetningu í ferðamennsku og kynjafræði, um kyngervi og um stjórnmál ferðamála.

Síðustu bækur Dr. Annette Pritchard eru:
Tourism Promotion and Power: Creating Images, Creating Identities (1998), Power and Politics at the Seaside (1999), Tourism and Leisure Advertising (2000), Destination Branding (2002). Í vinnslu eru: The Critical Turn in Tourism Studies (kemur út 2005) og Gender, Sexuality and Embodiment: Advances in Tourism Research (kemur út 2006).