Fimmtudaginn 6. október kynnir Kristín Linda Jónsdóttir niðurstöður rannsóknar Jafnréttisstofu í hádegisfyrirlestri á vegum RIKK. Fyrirlesturinn fer fram í stofu 102 á Háskólatorgi kl. 12:00-13:00.
Í sumar vann Kristín Linda rannsókn á hlutdeild kynjanna í námsefni í sögu á miðstigi grunnskóla, en síðastliðinn vetur vakti Bragi Guðmundsson prófessor við Kennaradeild Háskólans á Akureyri athygli á hlutdeild kynjanna í námsefni í sögu í íslenskum grunnskólum í grein sinni í Netlu, „Nýjar Íslandssögur fyrir miðstig grunnskóla“. Það var einkum nýútkomið námsefni í Íslandssögu sem vakti athygli Braga, bækurnar Sögueyjan 1 og 2, en 3. hefti Sögueyjunnar er nú í smíðum og munu bækurnar spanna Íslandssöguna alla frá landnámi til okkar daga. Þær eru því mikilvægt námsefni fyrir börnin okkar. Í framhaldi af þessu ákvað Jafnréttisstofa að rannsaka hlutdeild kynjanna í námsefni í sögu fyrir miðstig grunnskóla á Íslandi. Rannsóknir á þessu sviði má rekja til áranna um 1970. Þær hafa verið gerðar víða um heim meðal annars í Evrópu, Bandaríkjunum á Norðurlöndunum og á vegum UNESCO. Í rannsókn Jafnréttisstofu var beitt viðurkenndri aðferðafræði sem er þekkt á þessu sviði. Skoðaður var hlutur kynjanna í nafngreiningu í texta, tíðni nafngreiningar, hlutdeild í burðarhlutverkum, á áherslusvæðum og í myndmáli, og staðalmyndir og orðræða.
Kristín Linda Jónsdóttir lauk kennsluréttindanámi sem grunnskóla- og framhaldsskólakennari frá Háskólanum á Akureyri síðasta vor og stundar nú kandídatsnám í sálfræði við Háskóla Íslands, auk þess sem hún ritstýrir Húsfreyjunni, tímariti Kvenfélagasambands Íslands.